Arnarlax stærsta fyrirtæki Vestfjarða

27
Deila:

Arnarlax er stærsta fyrirtæki á Vestfjörðum í lok árs 2019 samkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi fyrirtækisins. Tekjur ársins af sölu á eldislaxi voru 9 milljarðar króna. Eignir á efnahagsreikningi voru bókfærðar á 16,7 milljarða króna og skuldlaus eign var 8,2 milljarðar króna. Ekkert annað félag nær Arnarlaxi í þessum þremur kennitölum. Þetta kemur fram í eftirfarandi úttekt á vefmiðlinum http://www.bb.is/2021/04/arnarlax-staersta-fyrirtaeki-a-vestfjordum/

Árið 2019 var framleiðslan um 10 þúsund tonn af eldislaxi og á þessu ári er áætlað að hún verði um 14 þúsund tonn eða um 40% aukning.

Gerður var samanburður á fimm fyrirtækjum á Vestfjörðum sem ætla má að séu þau stærstu í fjórðungnum í sjávarútvegi og eru fiskeldisfyrirtækin talin með sjávarútvegi. Auk Arnarlax voru það Arctic Fish, Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal, Jakob Valgeir í Bolungavík og Oddi á Patreksfirði. Eldisfyrirtækin tvö eru með starfsemi víða á Vestfjörðum, en Arnarlax er skráð á Bíldudal og Arctic Fish á Ísafirði. Stærstu fyrirtækin/stofnanir á Vestfjörðum utan sjávarútvegs eru líklega Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Orkubú Vestfjarða.

Þegar kemur að launagreiðslum og stöðugildum var Hraðfrystihúsið Gunnvör stærsta fyrirtækið á árinu 2019 með 158 stöðugildi og rúma tvo milljarða króna í greidd laun fyrir utan launatengd gjöld. Arnarlax var í öðru sæti með 111 stöðugildi og 1 milljarð króna launagreiðslur. Í þriðja sæti var Jakob Valgeir með 100 stöðugildi og rúman milljarð króna í laun. Oddi var fjórða stærsta fyrirtækið með 73 stöðugildi og 832 milljóna króna launagreiðslur og Arctic Fish var í fimmta sæti með 42 stöðugildi og 500 milljónir króna launagreiðslur.

ARNARLAX EIGNAMEST

Sem fyrr segir var Arnarlax eignamesta fyrirtækið bæði hvað varðar verðmæti eigna og fjárhæð eigin fjár. Eignar Arnarlax eru bókfærðar á 16,7 milljarða króna. Næst koma Hraðfrystihúsið Gunnvör með 13,1 milljarða krónu eignir og Jakob Valgeir með 13,3 milljarða króna eignir. Eignir Arctic Fish eru 11,4 milljarðar króna og eignir Odda voru bókfærðar á 3,7 milljarða króna.

Langverðmestu eignir útgerðarfyrirtækjanna þriggja eru veiðiheimildir en þær eru bókfærðar á 18 milljarða króna af um 30 milljarða króna efnahagsreikningi þeirra. Það er um 60% eignanna. Aðrar eignir þeirra eru samanlagt um 12 milljarðar króna. Samanlagt verðmæti eigna fiskeldisfyrirtækjanna tveggja var í lok árs 2019 um 28 milljarðar króna.

Skuldlausar eignir eldisfyrirtækjanna voru 11,5 milljarður króna en útgerðarfyfrirtækjanna þriggja tæpir 10 milljarðar króna. Eigið fé í eldisfyrirtækjunum var því nærri 2 milljörðum meira en í útgerðarfyrirtækjunum.

Arnarlax er með mesta eigið féð í lok árs 2019 eða 8,2 milljarða króna. Eigið fé Arctic Fish var 3,5 milljarður króna. Eigið fé Jakobs Valgeirs var tæpir 5 milljarðar króna. Hraðfrystihúsið Gunnvör var með eigið fé upp á 3,3 milljarða króna og Oddi með um 1,5 milljarð króna í eigið fé.

ARNARLAX TEKJUHÆST

Arnarlax var með mestu tekjurnar á árinu 2019 eða 9 milljarða króna. Næst kom Hraðfrystihúsið Gunnvör með 6,1 milljarð króna í tekjur. Þessi tvö fyrirtæki voru í sérflokki hvað tekjur varðar. Jakob Valgeir var í þriðja sæti með 3,7 milljarða króna, þá Oddi mmeð 2,7 milljarða króna og Arctic Fish var með 2,2 milljarða króna.

HRAÐFRYSTIHÚSIÐ GUNNVÖR MEÐ MESTAN HAGNAÐ

Hraðfrystihúsið Gunnvör skilaði hins vegar mestum hagnaði árið 2019 af þessum fimm fyrirtækjum. Hagnaður þess var 1,5 milljarður króna árið 2019. Jakob Vageir skilaði tæpum milljarði króna í hagnað, Arnarlax um 300 milljónum króna, Oddi 82 milljónir króna og 660 milljón króna tap var af rekstri Arctic Fish.

FISKELDIÐ Á MIKILLI UPPLEIÐ

Þegar litið er til þessa árs og reynt að spá í spilin um afkomu og vöxt þessara fyrirtækja frá 2019 þá blasir sú mynd við að fiskeldisfyrirtækin séu í miklum vexti. Samanlögð framleiðsla þeirra 2019 var um 13 þúsund tonn af eldislaxi en á þessu ári er áætlað að framleiðslan verði um 26 þúsund tonn eða tvöfalt meiri en 2019. Þetta þýðir að tekjurnar munu nálega tvöfaldast frá 2019 og störfum fjölga umtalsvert frá 2019. Þá voru tekjurnar 11,5 milljarður króna og stöðugildin 153 samkvæmt ársreikningi fyrirtækjanna.

Ekki er að vænta þess að umsvif bolfiskfyrirtækjanna þriggja aukist á þessu ári að ráði frá 2019. Þá voru samanlagðar tekjur þeirra 12,5 milljarður króna og fjöldi stöðugilda var 330. Engu að síður eru þau enn mikilvægust þegar horft er á fjölda starfsmanna og launagreiðslur.

En vöxturinn í vestfirsku hagkerfi verður fyrirsjáanlega umtalsverður á árinu, á að giska um 10 milljarðar króna, þrátt fyrir covid19 og er borinn upp af mikilli framleiðsluaukningu í laxeldinu. Þá er loksins komið framleiðsluleyfi fyrir annarri kalkþörungaverksmiðju á Vestfjörðum og framundan uppbygging á því sviði.

Eftir þriggja áratuga stöðnun og samdrátt á víxl á Vestfjörðum er greinilega komið vor í vestfirsk efnahagslíf. Því þarf að fylgja eftir með myndarlegum virkjunarframkvæmdum í fjórðungnum.

 

Deila: