Mikil áhrif af tíu þúsund tonnum

12
Deila:

Fiskeldi í sjó hefur vaxið mikið síðustu ár, þjóðinni til heilla. Fiskeldi Austfjarða hf. áformar allt að 10 þúsund tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði. Eins og gefur að skilja eru sumir fylgjandi þeim áformum en aðrir leggjast gegn þeim. En hvað þýða 10 þúsund tonn fyrir Seyðisfjörð? Þeirri spurningu er svarað í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjásvarútvegi.

„10 þúsund tonn leiða til fjölgunar á störfum. Samkvæmt nýlegri skýrslu KPMG er talið að hver 1.000 tonn í laxeldi skapi 10-14 störf að meðaltali. Þar með er ekki öll sagan sögð því störfin eru mun fleiri fyrir fyrstu þúsundin, en þegar framleiðslan eykst dregur úr hlutfallslegri fjölgun starfa. Þannig er talið að fjöldi beinna starfa á Vestfjörðum, vegna framleiðslu á 50 þúsund tonnum í sjókvíaeldi, verði allt að 640. Fjöldi óbeinna/afleiddra starfa verði 390 og allt að 1.850 íbúar þar gætu byggt afkomu sína á fiskeldi að einhverju leyti.

10 þúsund tonn gefa ungu fólki tækifæri til að snúa aftur heim í hérað eftir framhaldsnám. Hallað hefur á Austurland miðað við landið í heild, en hlutfallslega færri á aldrinum 20-59 ára búa þar en á landinu í heild, en 60 ára og eldri eru hlutfallslega fleiri. Sem dæmi um störf við fiskeldi má nefna; dýralækna, fiskeldisfræðinga, líffræðinga, lögfræðinga, matvælafræðinga, sjávarútvegsfræðinga, viðskiptafræðinga, vélstjóra, iðnaðarmenn, sölu- og markaðsfólk og mannauðsstjóra. Þetta er ekki tæmandi talning.

10 þúsund tonn auka útsvarstekjur til sveitarfélagsins, tekjur í hafnarsjóð, tekjur af auðlind í gegnum úthlutanir úr fiskeldissjóði, sem hefur það markmið að „styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.“ Samkvæmt ofangreindri skýrslu KPMG er ætlað að greiðslur til sveitarfélaga af 50 þúsund tonna eldi nemi 1,1 milljarði króna og skattspor verði 2,2 milljarðar króna á ári hverju.

10 þúsund tonn af dýrapróteini með lágt kolefnisspor er umhverfisvæn framleiðsla og styður við fæðuöryggi landsins.

10 þúsund tonna útflutningur styður við stöðugleika og dregur úr áhrifum efnahagssamdráttar líkt þeim sem gengur nú yfir landið vegna farsóttar. Umsvif í fiskeldi hafa aukist síðasta árið og þar með útflutningstekjur af greininni. Það styður við gengi krónu, og hefur þar með áhrif á vexti, verðbólgu og kaupmátt í landinu.

Eitt af því sem komið hefur berlega í ljós á undanförnum misserum, er að Íslendingar þurfa að skjóta fleiri stoðum undir efnahag sinn. Þar skiptir fjölbreytni máli og eitt á ekki að útiloka annað. Fiskeldi er eina útflutningsgreinin á Íslandi sem hefur vaxið á tímum COVID-19.

10 þúsund tonna fiskeldi í Seyðisfirði ætti ekki að vera einhverskonar skammaryrði heldur jákvæð, umhverfisvæn atvinnuuppbygging sem mun gera gott samfélag enn betra.

 

Deila: