Smyril Line eykur umsvifin í Þorláshöfn

26
Deila:

Fyrirtækið Smyril Line ætlar að auka mjög umsvif sín í Þorlákshöfn á næstunni, og byggja þar stórt vöruhús fyrir vöruflutninga til og frá Evrópu. Fjölga þarf starfsfólki í bænum vegna þessa. Fjallað er um þessa fyrirhuguðu aukningu á ruv.is:

Fyrirtækið Smyril Line er eflaust þekktast fyrir að gera út ferjuna Norrænu sem siglir með farþega og vörur á milli Seyðisfjarðar, Færeyja og Danmerkur. En um nokkurra ára skeið hefur fyrirtækið einnig gert út tvö skip sem sigla vikulega með vörur á milli Þorlákshafnar og Hirtshals í Danmörku annars vegar, og á milli Þorlákshafnar og Rotterdam í Hollandi hins vegar. Í dag er vöruhús fyrirtækisins í Hafnarfirði, en nú hefur verið ákveðið að flytja það í Þorlákshöfn.

„Fyrir það fyrsta koma skipin okkar hingað,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi. „Svo er það umferðin og dreifingin héðan, við erum með mikið af viðskiptavinum á Suðurlandi. Þannig að þá getum við afhent hér eða dreift héðan. Og svo inn í höfuðborgina, þetta er svo stutt. Ef maður tekur miðbæinn inn í Hafnarfjörð og miðbæinn hingað inn í Þorlákshöfn, þá eru kílómetrarnir kannski aðeins fleiri, en mínúturnar kannski ekkert miklu fleiri, út af umferð. Þannig að við erum að létta á umferðinni í höfuðborginni með því að gera þetta.“

Sparar 16 tíma

Vöruhúsið verður um 2.500 fermetrar og Linda vonar að það verði tilbúið eftir um tvö ár. Smyril line flytur mikið af ferskum fiski til Evrópu og húsið mun meðal annars nýtast fyrir þá starfsemi.

Linda segir að staðsetning Þorlákshafnar sé einstaklega hentug, enda sé einfaldlega styttra að sigla þaðan til Evrópu, en frá Reykjavík.

„Það tekur átta tíma að sigla fyrir Reykjanesið og þá 16 tíma fram og til baka ef við hugsum það þannig. Þannig að með þessu getum við verið með mjög stuttan „transit-tíma“, við erum einhvern 2,5 sólarhring að sigla til Evrópu með ferskvöruna. Og svo kemur auðvitað ferskvara með okkur hingað til Íslands.“

Linda segir að með nýja vöruhúsinu þurfi að fjölga starfsfólki í Þorlákshöfn.

„Við höfum fjölgað störfum hérna undanfarin fjögur ár, það eru fjögur ár síðan við byrjuðum að sigla hingað. Við höfum farið frá einum upp í tíu og á háannadögunum koma fleiri inn. Þannig að við búumst við töluverðri fjölgun með vöruhúsinu.“

 

Deila: