Kolmunnavertíðin fer vel af stað

2
Deila:

Víkingur AK er nú á landleið með um 2.700 tonn af kolmunna. Þetta er afrakstur rúmlega fjögurra sólarhringa á veiðum og er því ekki annað hægt að segja en að kolmunnavertíðin fari vel af stað þetta árið. Veiðisvæðið er syðst í færeysku lögsögunni en að sögn Hjalta Einarssonar skipstjóra var einnig veitt á hryggnum, sem þarna er, og í kantinum norður af hryggnum.
,,Við vorum að fá frá um 300 og upp í tæp 700 tonn í holi en alls voru tekin sex hol í veiðiferðinni. Byrjunin lofar því sannarlega góðu en ég minni á að vertíðin hefur oft byrjað vel en veiðin hefur svo minnkað verulega. Spurningin er bara hvernig veiðin kemur til með að þróast á næstunni,” segir Hjalti í samtali á heimasíðu Brims, en líkt og fyrr eru margir um hituna þegar kolmunninn er annars vegar.
,,Það eru ein 16 íslensk skip komin á miðin. Þarna eru líka skip frá Færeyjum, tvö grænlensk skip og svo slangur af rússneskum skipum,” segir Hjalti Einarsson.
Víkingur á að vera kominn til Vopnafjarðar kl. 19.30 í kvöld. Venus NS er nú á leið á miðin en skipið kom til Vopnafjarðar með fullfermi af kolmunna í byrjun vikunnar.

Deila: