Svipað magn af kolmunna innan lögsögu Færeyja

8
Deila:

Leiðangur færeyska rannsóknaskipsins Jákup Sverri hefur leitt í ljós að svipað magn af kolmunna er að finna innan lögsögu Færeyja í ár og var árið 2019. Leiðangurinn náði yfir svæðið sunnan Færeyja og á nyrðra hluta hrygningarsvæðisins. Vegna Kórónafaraldursins var enginn leiðangur farinn á kolmunnaslóðina í fyrra.

Sunnan lögsögunnar var mest að finna af kolmunna austar við landgrunn Írlands og Skotlands, en lítið á dýpra vatni. Ætlunin var á nýja rannsóknaskipinu að fara yfir stærra svæði en gamla rannsóknaskipið Magnús Heinason hafði venjulega farið yfir. Vegna slæms veðurs varð ekki úr því og ekki náðist að kanna veiðisvæðið austan Færeyja. Skipið reyndist þó vel við erfiðar aðstæður.

Stærð kolmunnans var misjöfn. Þriggja ára fiskur og eldri var suður af Hebridiseyjum og tveggja ára og eldri var sunnan við Wyville Thomson  hrygginn. Í rennunni norðan við hrygginn var mest af kolmunnanum ókynþroska, eins til þriggja ára gamall.

Leiðangurinn var hluti alþjóðlegra rannsókna á vegum Alþjóða hafrannsóknaráðsins og auk Færeyja taka Norðmenn, Írar, Hollendingar og Spánverjar þátt í honum. Farið verður yfir niðurstöður allra leiðangursskipa á fjarfundi undir lok mánaðarins.

 

Deila: