17 manna áhöfn í sóttkví

23
Deila:

Sautján manna áhöfn fiskiskipsins Þórsness SH 109, sem dregið var með bilaða vél til Þórshafnar í nótt, er í sóttkví meðan gengið er úr skugga um að mennirnir séu smitaðir af Covid-19. Skipstjórinn tilkynnt Landhelgisgæslunni um veikindi hjá fimm skipverjum áður en skipið var tekið í tog. Frá þessu er greint á ruv.is

Um hálfeitt í gærdag barst Landhelgisgæslunni beiðni um aðstoð við Þórsnes SH sem var með bilaða aðalvél um 40 mílur norður af Langanesi. Skipið var á grálúðuveiðum í net undan Norðurlandi.

Tilkynnti um veikindi hjá fimm skipverjum

Klukkan 15:25 hefur skipstjórinn aftur samband við Landhelgisgæsluna og segir að fimm skipverjar séu orðnir slappir og komnir með hita og einkenni hálsbólgu. Ásgeir Erlendsson, upplýsingarfulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að við það hafi ákveðið ferli farið í gang og viðkomandi heilbrigðisyfirvöld meðal annars verið upplýst um þessi veikindi.

17 um borð – sýni tekin úr öllum

Varðskipið Þór var komið að Þórsnesinu um sexleytið í gær og kom með skipið í togi til hafnar á Þórshöfn klukkan þrjú í nótt. Sautján eru um borð og tók starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Þórshöfn sýni úr öllum skipverjum í morgun til að ganga úr skugga um hvort þeir eru með Covid-19.

Frétti af bilaðri vél og veikindum á sama tíma

Eggert Bergmann Halldórsson, framkvæmdastjóri Þórsness hf. sem gerir skipið út, segir vika síðan þeir fóru í þennan túr. Hann segist hafa frétt af veikindum um borð á sama tíma og hann heyrði af bilaðri vél. Hann telur ólíklegt að einhverjir hafi verið veikir lengur án þess að hann hefði frétt af því.

Áhöfnin í sóttkví á meðan sýnin eru rannsökuð

Hermann Karlsson, varðstjóri hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra á Norðurlandi-eystra, segir sýnin nú í rannsókn á Akureyri og niðurstaða eigi að liggja fyrir seinnipartinn í dag. Á meðan er áhöfnin í sóttkví og enginn samgangur við skipverja um borð.

 

 

Deila: