Brim styður Fab Lab smiðju Vesturlands
Samstarfssamningur um rekstur Fab Lab smiðju Vesturlands var undirritaður á Akranesi föstudaginn 14. maí sl. Bæjarstjóri Akraness ásamt þeim Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og tuttugu öðrum undirrituðu samningin við hátíðlega athöfn sl. föstudag.
Einnig voru ný húsakynni smiðjunnar, hjá Breið þróunarfélagi við Bárugötu á Akranesi, vígð. Þróunarfélagið er sameiginlegt verkefni Akraneskaupstaðar og Brims hf. um atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Breið á Akranesi.
„Brim leggur til húsnæðið enda er eitt af markmiðum Breið þróunarfélags að frumkvöðlastarfsemi blómstri á svæðinu. Liður í því er að styrkja nýsköpun og er Fab Lab smiðjan vettvangur til að lyfta frumkvöðlastarfi enn frekar upp,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá Brim.
Smiðjan, sem er samstarfsvettvangur skóla og fyrirtækja á svæðinu, býður upp á aðgang að fjölbreyttum tækjabúnaði sem nýta má til framleiðslu og auðveldar þeim sem þangað sækja að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Hægt verður að móta, hanna og framleiða hluti með aðstoð stafrænnar tækni.
Hlutverk Fab Lab smiðju Vesturlands er meðal annars að:
- Stuðla að nýsköpun með því að veita einstaklingum, skólum og fyrirtækjum á Vesturlandi aðgang að stafrænum framleiðslutækjum.
- Auka nýsköpun í kennslu og kennsluháttum nemenda á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi sem og í fullorðinsfræðslu.
- Ýta undir tæknilæsi nemenda, einstaklinga með iðn- og tæknimenntun sem og almennings.
- Stuðla að hverskonar framþróun í framleiðslu og smíði á varningi sem tengist heimilum, fyrirtækjum og öðrum þeim sem hag geta haft af stafrænni framleiðslu og þekkingu.
- Skapa aðstöðu fyrir „Karla í skúrum“ og Félag eldri borgara þar sem eldra fólk getur sinnt áhugamálum og smærri verkefnum.
Aðrir samstarfsaðilar eru eftirfarandi:
Akraneskaupstaður, Brim, ELKEM Ísland, Félag eldri borgara á Akranesi, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjöliðjan, grunnskólar á Akranesi, Icewind, Landssamtök Karla í skúrum, leikskólar á Akranesi, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Muninn Film, Norðurál, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Skaginn 3X, Starfsendurhæfing Vesturlands og Símenntunarmiðstöð Vesturlands.