Ekki vöndur heldur leiðbeining

140
Deila:

„Um nokkurt skeið hefur verið fjallað um ýmsa þætti er tengjast starfsemi, starfsmönnum og stjórnendum Samherja. Í fyrri yfirlýsingum Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi vegna þessara mála hefur afstaða samtakanna verið afdráttarlaus og hún er óbreytt. Vísast þar meðal annars til yfirlýsinga sem birtust á heimasíðu SFS, 14. nóvember og 19. nóvember 2019, í kjölfar umfjöllunar um starfsemi Samherja í Namibíu.“

Þannig hefst pistill, sem birtur er á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

„SFS gera þá kröfu að félagsmenn fylgi lögum, bæði hér heima og erlendis, og viðhafi góða viðskipta- og stjórnarhætti. Fyrirtæki innan vébanda Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa markað sér stefnu í samfélagsábyrgð sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Fjöldi fyrirtækja hefur þegar undirritað stefnuna og hafið innleiðingu hennar.

Með því að setja sér stefnu í samfélagsábyrgð hafa fyrirtæki varðað leiðina og þau eru við upphaf þeirrar leiðar. Rétt er að halda til haga að flest þeirra uppfylla nú þegar marga þætti í stefnunni. Sjávarútvegurinn er ekki, frekar en aðrir geirar atvinnulífsins, fullkominn. Þar getur mönnum orðið á. En stefnan hvetur menn til gagnrýnnar hugsunar, til þess að huga og gæta að breytni sinni og framkomu í samfélaginu og bæta úr þar sem þarf. Stefnan er ekki vöndur – heldur leiðbeining.

Einstakar ákvarðanir fyrirtækja geta gengið gegn því sem kveðið er á um í stefnu um samfélagsábyrgð. Það er ekki ætlunin að SFS refsi hlutaðeigandi fyrirtæki. Þvert á móti. Í slíkum aðstæðum er stefnan einmitt mjög mikilvæg – hún er leiðarljós fyrirtækja aftur inn á rétta braut.

Samherji hefur birt afsökunarbeiðni vegna framferðis stjórnenda og starfsmanna í tengslum við umfjöllun fjölmiðla um áðurgreint mál. Viðkennt var að vikið var af braut. SFS telja mikilvægt að fyrirtækið axli ábyrgð á eigin ákvörðunum og athöfnum, stuðli að gagnsæjum starfsháttum og góðum samskiptum. Á þeim forsendum er unnið á vettvangi SFS og samtökin gera sömu kröfu til sinna félagsmanna.“

Deila: