„Skiptir öllu máli að það sé gaman á sjónum“

131
Deila:

Fjölbreytt efni er að finna í nýjasta tölublaði sjávarútvegstímaritsins Ægis, kemur nú út fyrir sjómannadaginn. Eðli málsins samkvæmt er áhersla lögð á viðtöl við sjómenn. Í blaðinu er meðal annars rætt við Kristgeir Arnar Ólafsson á Kap II VE, Bjarna Má Hafsteinsson á Guðrúnu Þorkelsdóttur SU, Jón Sigurgeirsson stýrimann á skipum Samherja og Ómar Björn Skarphéðinsson á Sólbergi ÓF.

Einnig er ítarleg umfjöllun um hinn Nýja Börk NK sem Síldarvinnslan er að taka á móti og um Oddeyrina EA, sem er nýtt skip í eigu Samherja og verður fyrsta íslenska skipið sem getur komið með lifandi fisk að landi.

Margt fleira efni er að finna í blaðinu, en í leiðara þess ritar Jóhann Ólafur Halldórsson svo:

„Sjómannadagurinn er að renna upp. Hátíðarhöld í tilefni dagsins verða þó víða um land af skornum skammti miðað við það sem alla jafna er þar sem enn eru talsverðar samkomutakmarkanir vegna
Covid faraldursins. Messuhald verður þó víða með hefðbundnum hætti og margt til gamans gert sem rúmast innan þeirra reglna sem sóttvarnayfirvöld setja. Samkomuhaldi var víðast aflýst í fyrra
af sömu ástæðum og þá var það í fyrsta sinn í 82 ára sögu sjómannadagsins sem dagskrá sjómannadagsins í Reykjavík var aflýst.
Í beinu framhaldi er vert að hrósa sjómönnum fyrir hversu vel þeim hefur gengið að róa þrátt fyrir hina smitandi Covid veiru í landinu. Þeirra störf hafa lagt grunninn að því að tekist hefur að
halda uppi nánast fullri vinnslu í landi á undangengnu ári og það hefur skipt þjóðarbúið sköpum. Margir sjómenn hafa þurft að lúta ýmsum reglum og takmörkunum til að láta hjól sinna vinnustaða
snúast og eiga sannarlega þökk skilið fyrir sitt framlag. Í stöku tilfellum hafa komið upp smit hjá áhöfnum skipa, líkt og á mörgum öðrum vinnustöðum í þjóðfélaginu en heilt yfir verður það að teljast afrek hjá sjómönnum og útgerðum hversu vel hefur tekist til við þessar mjög svo sérstöku aðstæður.“

Deila: