Átta bátar hafa landað humri

233
Deila:

Humaraflinn á fiskveiði árinu er nú orðinn 29,3 tonn og hefur aldrei verið minni. Kvótinn hefur heldur aldrei verið minni, eða 53,2 tonn miðað við slitinn humar. Skýringin er hrun í nýliðun í humarstofninum, en óljóst er hvað veldur því.

Átta bátar hafa nú landað humri og eru bátarnir frá Skinney-Þinganesi með langmestan afla. Þórir SF er með 6,2 tonn og Skinney SF með 5,9 tonn. Jón á Hofi ÁR er með 5,1 tonn og Fróði ÁR, 3,6 tonn en þessir bátar eru gerðir út af Ramma í Þorlákshöfn. Vinnslustöðvarskipin koma næst, Brynjólfur VE með 3,7 tonn og Drangavík með 3 tonn. Þá koma Inga P SH með 1,2 tonn og Sigurður Ólafsson SF með 760 kíló.

Nú eru óveidd um 24 tonn og af því eiga þrír bátar mest eftir. Það eru Ásgrímur Halldórsson SF, sem ekki hefur hafið veiðar og mun ekki því hann er uppsjávarveiðiskip. Gera má ráð fyrir því að heimildir hans verði fluttar yfir á Þóri og Skinney, en þær nema 4,7 tonnum. Rammaskipin í Þorlákshöfn eiga líka töluvert eftir, Jón á Hofi 4,2 tonn og Fróði 3,6 tonn. Loks á Pálína Þórunn GK óveiddar allar sínar heimildir, 3,5 tonn.

Deila: