Sendi norska sjávarútvegsráðherranum harðort bréf
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur sent Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, harðort bréf þar sem hann segist aldrei hafa fengið viðlíka skilaboð frá yfirvöldum í neinu landi og frá norska ráðherranum. Hann telur að ný fyrirmæli norska ráðherrans kunni að brjóta í bága við EES-samninginn. „Þeir geta notað þau orð sem þeir vilja,“ segir ráðherrann um bréf íslenska forstjórans.
Greint var frá þessu á ruv.is í gær. Ingebrigtsen sendi í byrjun síðasta mánaðar norsku fiskistofunni fyrirmæli um hvernig taka ætti á erlendu eignarhaldi í norskum sjávarútvegi.
Hann fór ekki leynt með að tilmælin væru tilkomin vegna þess að Samherji hefði keypt sig inn í norskt útgerðarfélag og sagðist ekki sjá ástæðu til að taka sérstaklega vel á móti fyrirtækjum sem söfnuðu undir sig veiðiheimildum í mörgum löndum.
„Ég dreg ekki dul á að þessi fyrirmæli eru til komin vegna íslenska fyrirtækisins Samherja sem hefur keypt sig inn í norskt útgerðarfélag,“ var haft eftir Ingebrigtsen á vef norskra stjórnvalda. „Samherji er nú þegar með starfsemi í fleiri Evrópulöndum og hefur stundað fiskveiðar í landhelgi okkar undir ýmsum fánum. Slík alþjóðleg samþjöppun eignarhalds skapar sérstakar áskoranir.“
Norska Fiskeribladet segir í frétt á vefsíðu sinni í morgun að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hafi sent sjávarútvegsráðherranum harðort bréf þar sem hann segist taka ummæli ráðherrans um „laskað orðspor fyrirtækisins“ mjög alvarlega.
Bréfið er sagt vera upp á fjórar síður og þar segist Þorsteinn aldrei hafa fengið viðlíka bréf frá yfirvöldum í neinu öðru landi. „Bréfið verður að teljast fordæmalaust þar sem það er sent til fyrirtækis sem hefur aldrei gerst brotlegt við lög.“ Samherji hafi alltaf og muni alltaf virða þau lög sem séu í gildi í Noregi.
Þorsteinn telur að fyrirmæli ráðherrans til norsku fiskistofunnar séu brot á EES-samningnum.
Hann rifjar upp að Samherji hafi í tuttugu ár verið með starfsemi í Noregi og hafi látið byggja þar 15 skip. Samherji sé álitinn vænlegur kostur af skipasmíðastöðvum í mörgum löndum og hefði getað kosið að láta að smíða skip sín annars staðar. „En við höfum valið Noreg og norskt atvinnulíf hefur notið góðs af því.“
Þorsteinn bendir enn fremur á að norsk sjávarútvegsfyrirtæki hafi fjárfest duglega á Íslandi og tengsl landanna sé náin. Yfirlýsingar ráðherrans séu þess eðlis að þau grafi undan þeim tengslum. Hann kveðst reiðubúinn til samtals og vill hitta norska ráðherrann á fundi.
Ingebrigsten vildi ekki tjá sig um orðalagið í bréfinu í samtali við Fiskeribladet. „Þeir geta notað þau orð sem þeir vilja.“ Hann vildi heldur ekki segja hvort eitthvað yrði af fundi hans og Þorsteins Más. Hann tók fram að Samherji yrði að lúta sömu reglum og önnur erlend fyrirtæki og að allir væru saklausir uns sekt þeirra væri sönnuð.