Fyrirtæki fyrir austan heimsótt

151
Deila:

Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís, Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafró og Kristján Þór Júlíusson, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra brugðu sér ásamt fylgdarliði austur á land þann 16. Júní síðastliðinn. Tilefni ferðarinnar var heimsókn í Múlann, útibú Matís Neskaupstað. Ákveðið var að nýta ferðina vel og heimsækja nokkra af helstu vinnustöðum Austfjarða.

Fyrsti staðurinn sem flokkurinn heimsótti var ný og glæsileg uppsjávarvinnsla Eskju á Eskifirði. Þorstein Kristjánsson, forstjóri Eskju, leiddi fróðlega skoðunarferð ásamt fleirum um húsnæðið sem er gríðarstórt og hátæknilegt. Næst var haldið í húsakynni Egersund á Íslandi sem einnig er staðsett á Eskifirði. Egersund er leiðandi fyrirtæki á sviði sölu, veiðarfæragerðar og viðgerða á flottrollum og nótum og fékk hópurinn að kynnast fólki við hin ýmsu störf.
Því næst var fyrirtækið Laxar fiskeldi heimsótt og haldið var út í eldiskvíar þeirra sem staðsettar eru í Reyðarfirði. Kvíarnar voru skoðaðar og Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri, ásamt fleira starfsfólki bauð að auki upp á kaffibolla úti í pramma sem var kærkominn í slyddunni sem passaði ekki vel við dagsetninguna á dagatalinu. Heimsóknin til Eskifjarðar var svo kórónuð með hádegisverði á Randulffssjóhúsi.

Eftir hádegið var haldið á Norðfjörð og Múlinn, samvinnuhús í Neskaupstað, heimsóttur. Margt starfsfólk var samankomið í Múlanum og fékk hópurinn að sunnan leiðsögn um húsið sem er allt hið glæsilegasta. Ráðherra ávarpaði samkomuna í upphafi og Oddur Már og Þorsteinn Sigurðsson gerðu það einnig. Stefán Þór Eysteinsson sagði að lokum frá uppbyggingu og innviðum nýs lífmassavers sem Matís er er að setja upp á staðnum í samvinnu við Síldarvinnsluna.

Eftir athöfnina í Múlanum var Börkur, nýtt skip Síldarvinnslunnar, skoðaður. Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar leiðsagði hópnum um skipið og sagði frá innviðum sem eru með því fullkomnasta sem gerist.

Deila: