Gott að geta sameinað vinnu og áhugamál

„Ég er úr mikilli sjómannsfjölskyldu þannig að sjómennskan lá eiginlega beinast við. Á þeim tíma var ég að minnsta kosti ekki að hugsa um einhverja skólagöngu. Ég byrjaði 16 ára á sjó, 1998 fór ég í fyrsta túrinn minn sem háseti á Kleifaberg ÓF. Ég átti miða á bikarúrslitaleik, þar sem Leiftur lék til úrslita. Ég fórnaði miðanum fyrir sjómennskuna og hef ekki séð eftir því. Það voru ágæt skipti enda tapaði Leiftur leiknum,“ segir Ómar Björn Skarphéðinsson, kokkur á Sólbergi ÓF.
Með mikinn áhuga á matreiðslu

Hann var svo á Kleifaberginu að leysa af í fyrstu, en síðan fast til ársins 2004. Þá hætti hann til að fara í skóla til að læra matreiðslumanninn og er í landi til júlí 2011. Þá var hann ráðinn aftur á Kleifabergið en þá sem kokkur.
„Ég hafði mikinn áhuga á matreiðslunni og fannst það gott að geta sameinað áhugamál og vinnu í þessu. Það eru líka margar útgerðir farnar að krefjast menntunar eða mikillar reynslu af kokkum, sem koma um borð. Ég var svo á Kleifaberginu til 2018, þegar ég fer yfir á Sólberg ÓF.“
Kleifabergið var komið til ára sinna á þessum tíma, líklega verið um fertugt en fiskaði mjög vel. Bæði í Barentshafinu og á Íslandsmiðum. Sólbergið kom nýtt til landsins 2017 og er stærsti og fullkomnasti togari landsins. Það hefur verið mikill munur á milli þessara skipa.
Bara lúxus
„Það er rosalegur munur á öllu. En maður var reyndar orðinn vanur öllu á Kleifabergi og hafði ég einnig farið í tvo afleysingartúra á Frosta frá Grenivík. Mér fannst þetta bara allt í lagi, það fór vel um mann um borð. Að fara yfir á hitt var bara lúxus hvað varðaði alla vinnuaðstöðu og upp á velting og hávaða að gera. Það var svona mesti munurinn. Það eru 35 manns um borð í Sólberginu en voru 28 á Kleifaberginu. Það er ekki stór munur á því að elda fyrir 35 eða 28, það er aðallega hvað allt er miklu stærra og meira sem maður þarf að halda utan um eins og þrif og fleira. Stundum er ég með messagutta en ekki alltaf og það léttir mér þá auðvitað vinnuna. En þetta er ekki vel borguð vinna að vera messagutti og ekki auðveldasta staðan að ráða í. Menn bíða ekki beint í röðum til að komast í það pláss. En skipið fiskar mikið og því er hásetahluturinn góður.“
Langur vinnudagur
En hvernig líður dagurinn hjá kokki úti á sjó, er hann ekki langur?
„Jú, hann er það. Mér líkar vel að byrja snemma á morgnana, ég er kominn á fætur um tuttugu mínútur í sex. Þá byrja ég að ganga frá eftir kvöldið og nóttina. Svo hef ég gert það að venju að fara að hlaupa á hlaupabretti niðri í tækjasalnum, svona um það bil fimm kílómetra. Svo fer ég og ryksuga og skúra og tek til morgunmatinn. Ein af breytingunum við að fara af Kleifaberginu yfir á Sólbergið voru vaktirnar, en á gamla skipinu voru vaktirnar sex og sex, en hér eru gengnar átta tíma vaktir. Það breytir töluverðu með matmálstíma. Það eru vaktaskipti klukkan tólf, átta og fjögur um nóttina. Það er þá hádegismatur frá ellefu til tólf. Fyrri vaktin kemur rúmlega ellefu og svo koma þeir sem eru að koma af vakt upp úr tólf. Svo er kvöldmatur klukkan sjö og átta. Ég er svo búinn með vaktina hálf níu til níu á kvöldin, það fer svolítið eftir því hversu fljótir karlarnir eru að borða. Ég set þá afganga fram svo karlarnir geti fengið sér af þeim til að hita upp um nóttina. Svo er alltaf brauð og álegg og afgangur frá deginum til reiðu fyrir nóttina.“
Fiskur sex sinnum í viku

Það hefur löngum verið sagt að bjáti eitthvað í veiðunum eða vinnslunni bitni það alltaf á kokkinum. Er það ennþá svo?
„Já, já, það er svolítið þannig. Þetta er þannig starf að þú verður að taka skömmunum frekar létt. Ef þú ætlar að vera kokkur á sjó og gera alla ánægða, þá ertu ekki í réttu starfi. Það er alltaf einhver sem vill eitthvað annað en það sem er í boði. Það er bara eðlilegt. Hér er ekki beint einhver heilsustefna um borð. Mataræðið hefur vissulega breyst í tímans rás og er nú orðið bæði fjölbreyttara og hollara en áður var. Á svona stóru skipi gefst líka möguleiki til að geta alltaf verið með aðgang að niðurskornum ferskum ávöxtum í kæliborði, það fer meira af þeim svoleiðis.
Þá er fiskur á borðum sex sinnum í viku. Ég er oft með pasta með fiskinum og reyni að stilla þessu þannig upp að sem flestir getir fengið eitthvað við sitt hæfi. Maður þekkir sína karla. Ef maður er með fiskrétt sem er vinsæll, sleppir maður pastanu, en með öðrum er gott að hafa pasta. Það er svo staðreyndin að ef þú borðar kjöt, ertu lengur saddur en þú borðar fisk. Þannig að ef þú færð pasta með fiskinum stendur maturinn betur með þér.“
Það kemur ýmislegt fyrir úti á sjó, gott og miður gott. Ómar segir að hvað varði eldamennskuna sé að eina skiptið sem hann hafi næstum verið afétinn, var þegar hann var eitt sinn með kjúklingasalat. Hann hafi hreinlega ekki reiknað með því að sjómenn myndu borða svona mikið af salati. Svo minnist hann á að það er alltaf skemmtilegast að elda fyrir áhöfnina, þegar verið sé með naut eða lamb. Það þarf ekki að vera flókið, naut, franskar og bernessóa og 99% eru sáttir.
1.200 pítubrauð í kostinum
„Það er svo kannski gaman að segja frá því að í fyrsta skipti sem ég þurfti að panta kost í Noregi, þar sem við vorum að fara að veiða við Barentshaf, hafi pöntunin ekki verið alveg eins og ég gerði ráð fyrir. Þegar ég kom um borð var kostur um allt skip, það komu t.d. 1200 pítubrauð í staðinn fyrir 12 pakkingar með 6 stk. í. Mig minnir að ég hafi verið ca. ár að klára þau, það bjargaði því að þau voru mjög góð. Nautasteikin kom fullelduð, allt morgunkorn var af skornum skammti, jógúrtin sem ég pantaði kláraðist á útleiðinni (þetta voru víst bara einhverjar smádollur). Ég greip því til þess ráðs að hafa heita súpu á hverju morgni til að drýgja morgunkornið. Hver einasta kartafla var nýtt, það var því kartöflumús 1-2 sinnum í viku allan túrinn.
Eignaðist barn í lokaþrifunum
Eftirminnilegasti túrinn minn var þegar ég átti von á þriðja barninu með konunni minni. Þarna var ég á Kleifaberginu árið 2017. Ég ákvað þá í samráði við konuna að skella mér á hitt kerfið sem háseti. Þá átti skipið að koma í land 31. ágúst, en fæðingin var áætluð þann 7. september. Í þessum túr millilönduðum við og á leið í land er pabbi minn sendur með sjúkraþyrlu á Landspítalann. Nokkrum dögum áður hafði hann lent í slysi þegar við vorum að ganga frá veiðarfærunum. Svo þegar við komum í land í lok túrs, er ég í lokaþrifum þegar konan fæðir næst yngsta drenginn okkar. Í sama túrnum eignast ég því barn og pabbi minn er fluttur heim í sjúkraþyrlu,“ segir Ómar.
Rammi með viðtali:
Fékk tækifæri hjá Víði
„Á þessum árum sem ég hef verið til sjós myndi ég segja að ég hafi verið frekar heppinn með áhafnir. Þeir skipstjórar sem ég hef mest unnið með eru Víðir Jónsson á Kleifaberginu og síðan Sigþór Kjartansson á Sólberginu. Þetta eru miklir fiskimenn með gríðarlegan metnað fyrir starfi sínu. Víðir Jónsson er sá maður sem gaf mér tækifæri sem háseti þegar ég var að byrja minn sjómannsferil og réði hann mig svo nánast beint úr skóla eftir að ég útskrifaðist sem matreiðslumaður.“
Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem gefið er út af Ritformi. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land, en það má líka lesa á heimasíðu Ritforms: https://ritform.is/wp-content/uploads/2021/06/soknarfaeri_3_tbl_2021_100_taka2.pdf