Ein stærsta dýpkunarframkvæmdin

144
Deila:

Um skeið hefur verið unnið hörðum höndum að endurbótum í Ísafjarðarhöfn sem miðast að því að bæta verulega aðstöðu fyrir skemmtiferðaskip og önnur stærri fley. Fyrir liggur tilboð í fyrri áfanga framkvæmdanna frá Borgarverki upp á 390 milljónir króna en það er niðurrekstur stálþils, fylling jarðefna fyrir innan það og lenging Sundabakkans um 380 m. Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri Ísafjarðarhafna segir verktakann ekki farinn af stað en það hljóti að verða á næstu dögum. Verkinu skal lokið eigi síðar en 31. júlí 2022. „

Það hefur orðið gríðarlegur vöxtur í komu skemmtiferðaskipa hingað til Ísafjarðar á síðustu árum að auðvitað frátöldu þessu síðasta ári. Það var orðið afar brýnt að bæta aðstöðu skipanna því langflest þeirra kjósa að geta lagst að bryggju þegar þau koma hingað. Tekjurnar sem við höfum fengið af þessum skipum gera okkur kleift að ráðast í þetta verkefni sem mun kosta ríflega einn milljarð króna þegar upp verður staðið. Þegar er búið að vinna jarðvinnu og reisa fyrirstöðugarð meðfram fyrirhuguðu stálþili sem svo verður rekið niður,“ segir Guðmundur.

Við byggingu stálþilsins verða reknar niður 254 tvöfaldar stálþilsplötur, steyptar 99 akkerisplötur og steyptur 380 m langur kantbiti með pollum, kanttré og stigum. Þá felst einnig í verkinu jarðvinna en fylla þarf upp fyrir innan þil um 26.900 m³. Áætluð’ verklok þessa áfanga eru á næsta ári. Síðan tekur við dýpkun hafnarinnar og að steypa þekju ofan á allt saman. Við dýpkunina verður dælt upp úr höfninni um 400 þúsund rúmmetrum af jarðefnum en þetta er með stærri dýpkunarframkvæmdum við Íslandsstrendur. Að lokinni þessari aðgerð verður dýpið við kantinn um 11 metrar. Steypuþekjan sem síðan verður lögð út er um 6.000 m² ásamt raforkuvirkjum og verður boðin út næsta vetur og verkið unnið sumarið 2022. Eftir þessar endurbætur á höfninni verður hægt að taka á móti skipum sem eru allt að 330 metra löng og með djúpristu upp á 9,5 metra.

„Með þessu getum við tekið öll skip að bryggju, en við höfum hingað til ekki getað tekið stærstu skipin, og þau hafa þá þurft að liggja við akkeri utar í firðinum,“ segir Guðmundur hafnarstjóri og bendir á að með því að ná allflestum skipunum að bryggju verði hægt að auka tekjur hafnarinnar mikið. „Við fáum mun meiri tekjur ef skipin eru við bryggju frekar en að þau liggi við akkeri. Við látum ekki deigan síga og erum sannfærð um að þegar fárinu lýkur muni stóru skemmtiferðaskipin flykkjast hingað til Ísafjarðar. Við erum í samstarfi við Vestfjarðarstofu og orkufyrirtækin að undirbúa rafvæðingu hafnarinnar til að draga úr mengun sem þessi stóru skip hafa óneitanlega í för með sér,“ segir Guðmundur hafnarstjóri að síðustu.

Þetta viðtal birtist fyrir í blaðinu Sóknarfæri, sem ritform gefur út. Blaðið má lesa á eftirfarandi slóð:
https://ritform.is/wp-content/uploads/2021/06/soknarfaeri_Framkv_4_tbl_juni_2021_100.pdf

Deila: