Aflahæsti grásleppubáturinn gerður út frá elstu verstöð landsins

309
Deila:

Það má heldur betur segja að grásleppuvertíðin hafi gengið vel hjá áhöfn Hugrúnar DA-1 sem gerð var út frá Skarðsstöð á Skarðsströnd í Dölum. Það eru feðgarnir Gísli Baldursson og Baldur Þórir Gíslason, ásamt Quentin Monner, sem skipa áhöfn Hugrúnar en mokveiði hefur verið hjá þeim á Breiðafirði síðustu vikur.

Vertíðinni lauk, miðvikudaginn 24. júní, og var heildarafli Hugrúnar DA-1 um 115 tonn eftir vertíðina, en það á eftir að staðfesta. Þessi góða veiði gerir Hugrúnu að aflahæsta grásleppubáti landsins árið 2021. „Það verður þó ekki staðfest fyrr en vertíðin klárast 12. ágúst. Það eru enn bátar að veiða en eins og er erum við hæstir,“ segir Baldur Þórir í samtali við Skessuhorn. Hann bætir við að ekki sé útlit fyrir að aðrir bátar muni veiða meira en þeir eins og staðan er í dag.
Á myndinni eru Quentin Monner, Baldur Þórir Gíslason og Gísli Baldursson sem skipa áhöfnina á Hugrúnu DA-1. Hér eru þeir komnir í land eftir síðasta veiðidag á vertíðinni í blíðskaparveðri.
Frétt og mynd af http://skessuhorn.is/

Deila: