Oddeyrin komin heim
Oddeyrin EA-210 kom til Akureyrar í nótt frá Danmörku en þetta nýjasta skip í skipastól Samherja hf. hefur verið í breytingum hjá Karstensens Skibsværft síðustu mánuði. Útfærsla skipsins er nýjung og markar algjöra sérstöðu í fiskiskipaflotanum hér á landi því skipinu er ætlað að hefja tilraunir með að koma með lifandi bolfisk að landi til vinnslu. Slíkt hefur ekki áður verið reynt hér á landi. Fjallað var um skipið í síðasta tölublaði Sóknarfæris, sem Ritform gefur út.
Vinnslubúnaður frá Slippnum
Samherji hefur undirritað samning við Slippinn á Akureyri um smíði og uppsetningu á vinnslubúnaði í Oddeyrina EA en um er að ræða blöndu af hefðbundnu fyrirkomulagi og nýjungum sem tengjast meðferð og flutningi á lifandi fiski. Samningurinn við Slippinn felst í vinnslubúnaði sem settur verður um borð á Akureyri. Búnaðurinn er blanda af hefðbundnu og nýjungum, t.d. nýrri tegund af þvottatanki og stórum blóðgunarbrunnum sem Slippurinn hefur hannað. Blóðgunarbrunnarnir ná frá vinnsluþilfari að tanktoppi en þannig næst mikið rúmmál fyrir afla í blæðingu sem eykur gæðin. Þá verður komið fyrir krapavél frá KAPP ehf. sem bæði verður notuð til að kæla afla í vinnslu og í lest. Með þessu er lögð áhersla á blæðingu og kælingu á þeim afla sem slátrað er um borð.
Hugmyndin er samt sem áður að sem hæst hlutfall afla fari lifandi í tanka og verði afhent þannig í land. Heildarverðmæti vinnslubúnaðar frá Slippnum er á annað hundrað milljónir króna. Viðamiklar breytingar í Danmörku Oddeyrin EA hét áður Western Chieftain og var skipið gert út á Írlandi en Samherji hf. festi kaup á því í lok síðasta árs. Um er að ræða lítið notað og vel búið 45 metra langt uppsjávarskip. Umfangsmiklar breytingar á skipinu fóru fram í Karstensen Skibsværft í Danmörku. Þar var skipið lengt um 10 metra og hefðbundnu vinnsludekki og fiskilest komið fyrir. Upphaflegir kælitankar í skipinu voru látnir halda sér en þeim breytt til að geyma lifandi fisk. Nýju dekkhúsi, sem mun hýsa flokkunaraðstöðu, var komið upp og unnið er að því að koma fyrir búnaði til flokkunar á afla eftir að honum er dælt um borð. Í lokaáföngum í breytingum var unnið í brú að uppfærslu á ýmsum búnaði og fiskleitartækjum sem henta betur til bolfiskveiða. Loks var skipið málað. Upphafleg verklok voru áætluð í mars en Covid-heimsfaraldurinn hefur haft sín áhrif til seinkunar. Verkið hefur jafnframt tekið ýmsum breytingum eftir að áhöfn og fleiri komu með þekkingu sína og reynslu að borðinu, að því er segir í upplýsingum frá Samherja hf.
Sóknarfæri er aðgengilegt á heimasíðu Ritforms, https://ritform.is/utgafur/
Ljósmynd Jóhann Ólafur Halldórsson