Sjávarafurðir 43% vöruútflutnings
Verðmæti vöruútflutnings í júní 2021 jókst um 11,9 milljarða króna, eða um 25,5%, frá júní 2020, úr 46,8 milljörðum króna í 58,7 milljarða samkvæmt frétt frá Hagstofu Ísands. Verðmæti útfluttra iðnaðarvara jókst um 5,9 milljarða króna eða 29,2% samanborið við júní 2020 og munar þar mest um aukið útflutningsverðmæti áls og kísiljárns. Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 4,1 milljarð eða um 17,9%, munar þar mestu um aukið verðmæti uppsjávarfisks.
Verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili, frá júlí 2020 til júní 2021, var 668,5 milljarðar króna og hækkaði um 63,4 milljarða króna miðað við sama tímabil ári fyrr eða um 10,5% á gengi hvors árs.. Iðnaðarvörur voru 47% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði og var verðmæti þeirra 7,5% meira en á tólf mánaða tímabili þar á undan. Sjávarafurðir voru 43% alls vöruútflutnings síðustu tólf mánuði en verðmæti þeirra jókst um 11,4% á milli tólf mánaða tímabila. Verðmæti útflutnings í fiskeldi jókst um 8,3 milljarða, eða 31,5%, á sama tímabili eða um 5% af heildarútflutningi.