Minna landað í Grindavík

177
Deila:

Samdráttur varð í lönduðum afla í Grindavík í júlímánuði miðað við sama mánuð í fyrra. En afli sem barst á land í Grindavíkurhöfn er um 1.500 tonn í 49 löndunum á móti 2.500 tonnum í 111 löndunum árið 2020. Í meðfylgjandi töflu má sjá yfirlit yfir landaðan afla og áætlað aflaverðmæti frá janúar til júlí í ár. Samdráttinn má aðallega rekja til þess að skip gerð út í Grindavík hafa ekki stundað markílveiðar í ár. Færri landanir má rekja til þess að strandveiðar hafa ekki gengið sem skyldi í júlímánuði þetta árið.


Skýringin er líka sú að stóru línubátarnir hættu veiðum fyrr í júlí en í fyrra og sömu sögu er að segja af togbátum Gjögurs. Í gær var nokkru líflegra við höfnina þegar Harðbakur EA landaði þar afla. Auk hans voru þá Langanes GK og Maron GK í höfninni og skip Vísis, Páll Jónsson, Sighvatur og Fjölnir og Gjögurbátarnir Vörður og Áskell svo og Þorbjarnarbátarnir Valdimar og Sturla og loks Jóhanna Gísladóttir frá Vísi, sem er nú að ljúka hlutverki sínu hjá Vísi.

Deila: