Viðgerðir á Kvíabryggju boðnar út
Útboð vegna viðgerðar á Kvíabryggju sem er löndunarbryggja fyrir smærri báta, hefur nú verið auglýst á vef Vegagerðarinnar..
Kvíabryggja er fyrsta bryggjan sem smíðuð var í Hópinu eða árið 1944. Fyrsti hluti hennar steinsteypt en timburbryggjan sjálf er upphaflega byggð árið 1957. Árið 1971 var hún endurbyggð í núverandi mynd. Árið 1987 var steyptur landveggur aftan við þriðju stauraröðina og efri tangir festar í hann. Árið 1992 flaut bryggjan upp í óveðri og fóru þá töluverðar viðgerðir fram á mannvirkinu.
Helstu verkþættir eru:
· Endurnýja u.þ.b. 420 m² af furu bryggjudekki,
· Endurnýja u.þ.b. 60 m af kanttré og langböndum
· Endurnýja u.þ.b. 10 skástífur og 3 stiga
· Reka viðbótar staura u.þ.b. 7 stk
· Smíði, steypa og uppsetning á einum 100 tonna stormpolla ásamt stagi og toghlera.
Verkinu í heild skal lokið eigi síðar en 15. desember 2021.