Ekki hægt að spá fyrir um áhrifin
![](https://audlindin.is/wp-content/uploads/2021/08/Hronn-Egilsdottir.jpg)
Rætt var við Hrönn Egilsdóttur, sjávarvistfræðing hjá Hafrannsóknastofnuninni, í sjónvarpsfréttum á mánudag og hún fengin til að bregðast við hinni nýju skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsvána. Hún segir að óvissa ríki um áhrif loftslagsbreytinga á hafið. Nýja skýrslan fjalli aðallega um hvaða breytingar séu að verða á umhverfinu en ekki hver áhrifin verði. Rætt er við Hrönn í Speglinum á ruv.is
„Hún talar ekki mikið um áhrifin. Óvissan felst aðallega í áhrifunum; hver verða raunveruleg áhrif og birtingarmynd þessara umhverfisbreytinga? Það er nokkuð óvíst.“
Áhrif súrnunar sjávar séu ekki merkjanleg enn þá hér við land. Áhrif hitastigsbreytinga hafi verið skoðuð en vandinn við breytingarnar sé hversu víðtækar þær séu.
„Við erum að tala um marga þætti sem eru að breytast á sama tíma. Þú ert með hitastigsbreytingar, svo ertu með breytingar á lagskiptingu sjávar, að efsta lag sjávar er að hitna eða hlýna og þar með verður minni blöndun, það er hætta á því. Það er verið að tala um mögulegar breytingar á hafstraumum vegna þessara umhverfisbreytinga þ.e.a.s. hlýnunar sérstaklega, og svo ertu með súrnun sjávar einnig. Og ofan á það eru að verða aðrar breytingar eins og t.d. bara mengun, plastmengun. Og vandinn sem við stöndum frammi fyrir í líffræðinni sérstaklega er að þetta eru svo víðtækar breytingar og svo erfitt að skoða þetta svona heildrænt, hvernig áhrifin koma fram á lífríkið.“
Áhrif loftslagsbreytinga í hafinu lítið rannsökuð
Hrönn bendir á að nauðsynlegt sé að efla rannsóknir á hafinu til muna. Ekki hafi verið mikið um rannsóknir á súrnun sjávar eða áhrifum loftslagsbreytinga á Íslandi eða hafinu yfirleitt. Áform séu uppi um að auka þær rannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun.
„Við byggjum afkomu okkar að miklu leyti á sjávarútvegi gæti þetta raskað því? Það er bara gríðarleg óvissa. Við vitum ofboðslega lítið. Hlýnun sjávar eða hitastigsbreytingar eru að valda breytingum á dreifingu fiskistofna.
Líklegt er að þorskurinn verði hér við land áfram en það er spurning með loðnuna, sem er ein aðalfæða þorsksins. Brottfall loðnunnar gæti haft gríðarleg áhrif á þorskstofninn en það er mikil óvissa þarna enn þá. Það er vandinn sem við stöndum frammi fyrir í vísindunum, það er óvissan um áhrif.“