Mikill sjávarhiti fyrir norðan
Stjórnvöld þurfa að bregðast við þessum loftslagsbreytingum sem eru að hellast yfir okkur, segir Hörður Sigurbjarnarson, skipstjóri hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Norðursiglingu, sem mælt hefur yfirborðshita í sjónum í Eyjafirði og Skjálfanda í meira en tvo áratugi. Yfirborðshitinn sem hann mælir nú er allt að 17 gráðum sem er fimm gráðum meira heldur en hæstu mælingar hingað til . Fjallað er um málið í Speglinum á ruv.is
Viðbrögð við loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna
Hörður bregst, í Speglinum, við nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) um loftslagsmál sem kynnt var á mánudag. Það gerir líka Hrönn Egilsdóttir sjávarvistfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, sem segir að erfitt sé að meta áhrif loftslagsbreytinganna vegna þess hve víðtækar þær séu.
Yfirborðshiti í Skjálfanda 17 gráður á celsíus
Heyrum fyrst hlið Harðar sem verið hefur skipstjóri á áratugi og eigandi Norðursiglingar á Húsavík. Fyrirtækið var stofnað 1995 og frá þeim tíma hefur Hörður fylgst með yfirborðshita sjávar, á Skjálfanda og í Eyjafirði
Hann segir að gert sé ráð fyrir því í loggbók bátsins að skipstjórinn kanni yfirborðshita sjávar.
„Það er þannig að mesti sjávarhiti sem ég hef verið að mæla í Skjálfanda og það er yfirborðshiti með góðum celsíus-kvikasilfursmæli, það eru 12 gráður á heitustu sumrum. Mörg sumur hafa verið þannig að yfirborðið hefur ekki náð þessum 12 gráðum, ekki nálægt því.“ Meðalhitinn hafi verið svona 9 til 11 gráður.
„En svo bregður nýrra við núna þegar kominn er ágúst að ég mæli 16 gráður og 17 gráður bæði hér á miðjum Skjálfanda og í utanverðum Eyjafirði þannig að mig rekur í rogastans að þetta skuli vera tvöföldun í frávikum eins og vísindamennirnir tala um. Þetta er svo svakalegt að maður bara spyr sig hvað eru verstu spár. Voru þær ekki nógu vondar um þróun umhverfisbreytinga af mannavöldum eða veðurfarsbreytinga?“
Stjórnvöld þurfa að bregðast við loftslagsbreytingum
Hörður segir að erfitt sé að átta sig á því hvað sé eðlilegt og hvað ekki, það eina sem fólk geti gert sé að reyna að gera sitt besta og minnka kolefnissporið eins og kostur er. Breytingar séu að verða á lífríki sjávar en ekki sé ljóst hvaða þýðingu þær hafi. Hann hefur tekið eftir því að hrefnum hefur fækkað mjög mikið og segir að áður fyrr hafi þær verið miklu gæfari. Hann verður líka var við plastmengun í sjónum. Norðursigling er í samvinnu við spænskan líffræðing sem rannsakar plastmagn í sjónum og segir greinilegt að það hafi aukist. Plastið fari í sjóinn af margvíslegum ástæðum. Til dæmis eru engar kröfur gerðar til sjávarútvegsins um að ganga almennilega um hringrásarhagkerfið. Það sé eitt af nýju lausnarorðunum.
„En það kemur ekkert nálægt þeim þessi 1000 tonnum sem þarf að eyða af plasti í veiðarfærum landsmanna. [..] Það ber enginn ábyrgð á því.
Finnst þér að það megi herða reglur um þau?
Sko, að mínu viti þarf stjórnvaldið að bregðast við þessum breytingum sem hellast yfir okkur og ég er ekki að sjá að það sé pólitískur vilji fyrir því að gera breytingar sem eru róttækar. Það er bara ekki þannig. Þegar mældur er útblástur frá Íslendingum þá erum við bara ekkert að minnka.“
Hélt að þetta myndi gerast 2050
Hörður segir að loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna sem kom út í gær hafi áhrif á sig.
„Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hefur þessi skýrsla áhrif á mig.
Þegar ég fer í minn veruleika þá get ég alveg sagt það að á níunda áratugnum hafði ég miklar áhyggjur af því sem manni sýnist vera að raungerast núna. Ég hélt að það myndi ekki verða fyrr en 2050 en nú er 2021 og það er að gerast sem ég óttaðist þá að myndi gerast 2050.“