Sólberg með mest af þorski

286
Deila:

Nú, þegar 20 dagar lifa af fiskveiðiárinu, er þorskaflinn orðinn um 202.300 tonn af slægðum fiski, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Leyfilegur heildarafli eftir sérstakar úthlutanir og millifærslu milli ára, er 216.000 tonn af slægðum þorski. Því eru óveidd um 14.700 tonn. Það verður því lítið eða ekkert um veiðiheimildir sem falla ónýttar niður, þar sem það sem kann að verða óveitt um „áramótin“ verður innan leyfilegra marka um flutning aflaheimilda milli ára.
Sex togarar eru komnir yfir 4.000 tonn á fiskveiðiárinu samkvæmt aflastöðulistanum. Langaflahæsta skipið er Sólberg ÓF, með 6.974 tonn innan lögsögunnar. Næst kemur Björgúlfur EA með 4,827 tonn og þarnæst kemur Kaldbakur EA með 4.813 tonn. Þá koma Drangey SK með 4.528 tonn, Björg EA með 4.188 tonn og Akurey RE með 4.006 tonn.  Þessar tölur eiga vafalítið eftir að breytast eitthvað, þegar fiskveiðiárinu lýkur.

Auk þessa hafa sjö togarar veitt þorsk innan lögsagna Noregs og Rússlands. Sólberg ÓF hefur veitt 1.348 tonn af þorski í norsku lögsögunni, Örfirisey RE hefur sótt 1.211 tonn þangað, Kaldbakur EA veiddi þar 396 tonn og Björgúlfur EA 278 tonn. Kvóti okkar þar upp á 3.423 tonn er uppveiddur.

Úr Rússasjónum eru komin 2.997 tonn af kvóta upp á 4.279 tonn. Þar er Örfirisey RE aflahæst með 941 tonn, Vigri RE er með 769 tonn, Arnar HU er með 688 tonn og Blængur NK með 597 tonn.

Deila: