Klórleki varð 96.000 löxum að aldurtila
15.000 lítrar af klóri fóru í sjóinn hjá laxeldisstöðinni Grieg Seafood í Alta í Norður-Noregi nú í vikunni. Afleiðingin er mikil því klórið drap 96.000 laxa, sem voru í kvíum við sláturhús fyrirtækisins og biðu þar slátrunar, en ekki með þessum hætti.
Starfsmenn eldisstöðvarinnar hófust strax handa við að taka dauða laxinn á land og skoða betur hvað gerðist. Ekki liggur fyrir hvort eða hvernig hægt verður að nýta þennan lax.
Eldisstöðin notar klór til hreinsunar á vatni. Klór er hættulegur fólki í andrúmsloftinu, en þar sem það rann í þessu tilfelli beint í sjóinn, er því ekki hætta búin vegna lekans.
Við sláturhúsið á Simanesi við Altafjörð eru um 400 tonn af laxi í kvíum sem bíða slátrunar. Fyrirtækið hefur starfað í 35 ár og hefur óhapp af þessu tagi aldrei orðið áður.