Minna flutt utan frá Færeyjum

158
Deila:

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum á fyrri helmingi þessa árs, er á svipuðu róli og á sama tíma í fyrra. Verðmætið bæði í ár og í fyrra er um 80 milljarðar íslenskra króna. Magnið er rétt ríflega 201.000 tonn, sem er samdráttur um 23%.

Helstu breytingar frá síðasta ári eru þær að útflutningur á makríl hefur fallið úr 36.600 tonnum í 10.340 tonn. Það er samdráttur um 72%. Skýringin er að mestu leyti sú, að vertíðin hófst nú mun seinna en í fyrra.  Verðmætið nú er tveir milljarðar en var á sama tíma í fyrra 8,5 milljarðar króna. Það er fall um 76%.

Útflutningur á síld og kolmunna hefur á hinn bóginn aukist um 25% og 33% mælt í magni.

Útflutningur á laxi fer nú vaxandi á ný. Á fyrri helmingi þessa ár var magnið 37.851 tonn en á sama tíma í fyrra var magnið 29.211 tonn. Það er vöxtur um 30%. Verðmætið nú er um 40 milljarðar íslenskra króna og hefur það aukist um 14%

Útflutningur á botnfiski hefur dregist saman. Ríflega 10.000 tonn af þorski hafa farið utan á fyrst sex mánuðum ársins, en það er 12% samdráttur frá sama tíma í fyrra. Útflutningur á ufsa hefur dregist saman um 10%, sala á ýsu á hinn bóginn vaxið um 10%.

Deila: