Kærum Samherja vísað frá
Embætti ríkissaksóknara hefur staðfest ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að fella niður kæru Samherja gegn fimm starfsmönnum Seðlabankans og rannsókn á meintum leka úr Seðlabankanum til fréttamanns RÚV. Þetta staðfestir Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV.
Samherji kærði fyrir tveimur árum fimm starfsmenn bankans vegna rannsóknar á meintum brotum félagsins á lögum um gjaldeyrismál.
Kæran var lögð fram hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu en vegna tengsla þáverandi lögreglustjóra við Samherja tók lögreglustjórinn á Vestfjörðum við málinu.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, kallaði eftir því í viðtali við Stundina að Alþingi setti lög þar sem opinberum starfsmönnum og embættismönnum væri veitt vernd gegn slíkum málsóknum. Ótækt væri að einkafyrirtæki gætu ráðist persónulega að þeim með slíkum hætti.
Kæran var síðan sameinuð öðru máli þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, vísaði mögulegum upplýsingaleka frá Seðlabankanum til RÚV til lögreglu. Það erindi fór fyrst til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem sendi það áfram til lögreglustjórans á Vestfjörðum.
Það varðaði húsleit hjá Samherja fyrir níu árum og snerist um hvort starfsmaður Seðlabankans hefði upplýst starfsmann RÚV um að til stæði að gera húsleit hjá Samherja.
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum vísaði málunum frá þann 4. mars og nú hefur ríkissaksóknari staðfest þá ákvörðun.