Trollið varð eins og kaðall

139
Deila:

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE er kom til heimahafnar í Vestmannaeyjum í gær. Skipið var með fullfermi en það landaði síðast sl. sunnudagskvöld. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Egil Guðna Guðnason stýrimann og spurði fyrst hvar hefði verið veitt.

„Við vorum við Ingólfshöfðann og austur í Sláturhúsinu. Aflinn er að mestu ýsa og þorskur og svo er pínulítið af ufsa. Veðrið var afskaplega gott en þó vorum við í leiðinda suðvestan streng í gær. Það voru ábyggilega 12-15 metrar akkúrat þar sem við vorum að veiðum. Túrinn var tíðindalítill ef undan er skilið smá bras sem við lentum í. Við lentum í því að trollið vafðist upp hjá okkur og varð eins og kaðall. Þetta var afar sérstakt og enginn hér um borð hefur séð þetta gerast áður. Það tók talsverðan tíma að greiða úr þessu en það tókst farsællega,“ segir Egill Guðni.
Ljósmynd Egill Guðni Guðnason.

Deila: