Auknar tekjur og hagnaður Síldarvinnslunnar
Rekstrartekjur SVN-samstæðunnar á öðrum ársfjórðungs voru 47,0m USD og 99,4m USD á fyrri árshelming. Árið 2020 voru tekjurnar 29,7m USD á öðrum ársfjórðungi og 59,1m USD á fyrri árshelmingi. Aukningin milli ára stafar fyrst og fremst af loðnuvertíð.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi var 12,8m USD eða 27,2% af rekstrartekjum, en á öðrum ársfjórðungi árið 2020 var EBITDA 4,1m USD eða 13,8% af rekstrartekjum. Á fyrri árshelmingi 2021 var EBITDA 32,7m USD eða 32,8% af rekstrartekjum til samanburðar var hún 12,4m USD á fyrri árshelmingi 2020 eða 20,9% af rekstrartekjum.
Hagnaður fyrir tekjuskatt var 34,2m USD á öðrum ársfjórðungi og 59,5m USD á fyrri árshelmingi samanborið við 8,1m USD á öðrum ársfjórðungi 2020 og tap upp á 1,1m USD á fyrri árshelmingi 2020. Tekjuskattur var 2,7m USD á öðrum ársfjórðungi og 6,9m USD á fyrri árshelmingi.
Hagnaður annars ársfjórðungs 2021 nam því 31,6m USD og 52,6m USD á fyrri árshelmingi samanborið við hagnað upp á 7,0m USD á öðrum ársfjórðung 2020 og 0,5m USD tap fyrri árshelmingi 2020.
Efnahagur
Heildareignir námu 603,9m USD í lok annars ársfjórðungs 2021. Þar af voru fastafjármunir 461,8m USD og veltufjármunir 142,1m USD.
Breyting á veltufjármunum frá lokum árs 2020 skýrist helst með lækkun á handbæru fé sem nemur 27,0m USD. Á móti hafa birgðir aukist um 6,8m USD. Til sölu eru fastafjármunir að upphæð 13,0m USD. Þar er um að ræða skip ásamt verksmiðjubúnaði í Helguvík. Fastafjármunir hafa aukist um 45,3m USD sem er að stærstum hluta vegna kaupa á öllu hlutafé í Bergi ehf.
Fjárhagsstaða félagsins er sterk og nam eigið fé 390,9m USD. Eiginfjárhlutfall var 65% í lok ársfjórðungsins samanborið við 68% í lok árs 2020.
Heildarskuldir félagsins voru 213,0m USD í lok ársfjórðungsins og hækkuðu um 29,2m USD. Vaxtaberandi skuldir voru 129,0m USD í lok ársfjórðungsins og hækkuðu um 13,0m USD frá áramótum og er það vegna endurfjármögnunar langtímalána.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 31,6m USD á fyrri árshelmingi 2021 en var 18,7m USD á fyrri árshelmingi 2020. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 78,2m USD á fyrri árshelmingi. Skýrast þær helst af kaupunum á Bergi ehf. og smíði á nýjum Berki. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 19,9m USD. Handbært fé í lok árshelmingsins nam 63,1m USD.
Meginniðurstöður í íslenskum krónum á ársfjórðungnum
Séu niðurstöður rekstrarreiknings annars ársfjórðungs 2021 reiknaðar í íslenskum krónum á meðalgengi fjórðungsins (1 USD=123,5 kr) voru rekstrartekjur 5,8 milljarðar, EBITDA 1,6 milljarðar og hagnaður 3,9 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar í íslenskum krónum á gengi 30. júní 2021 (1 USD=123,22 kr) voru eignir samtals 74,4 milljarðar, skuldir 26,2 milljarðar og eigið fé 48,2 milljarðar.
Samþykkt árshlutareiknings
Árshlutareikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Síldarvinnslunnar 26. ágúst 2021. Árshlutareikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS- International Financial Reporting Standards).
„Uppgjörið endurspeglar vel þær sveiflur sem sjávarútvegurinn býr við og hvað ein loðnuvertíð er mikilvæg fyrirtæki eins og okkar. Að sama skapi hefur það sýnt sig í gegnum þessa Covid tíma hvað öflugt starfsfólk skiptir miklu máli.
Efnahagur félagsins er sterkur sem er mikilvægt til að mæta þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér. Fyrirtæki þurfa stöðugt að vera vakandi fyrir nýjum lausnum í sínum rekstri og fyrir sjávarútvegsfyrirtæki er mikilvægt að leita leiða til að auka verðmæti auðlindarinnar með sem minnstum umhverfisáhrifum,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.
Starfsemin á öðrum fjórðungi ársins
- Veiðar og vinnsla á kolmunna gengu vel.
- Gengið var frá kaupum á 12,4% hlutfjár í Runólfi Hallfreðssyni ehf. Síldarvinnslan á nú allt hlutafé í félaginu og stefnt er að sameiningu félaganna frá og með 1. júlí.
- Sala á loðnuafurðum hefur gengið vel.
- Nýr Börkur var tekinn í rekstur í stað eldra skips og hafa veiðar á skipinu gengið vel
- SVN eignafélag ehf. var afhent hluthöfum 9. apríl síðastliðinn
Helstu niðurstöður úr fjárhagsuppgjöri annars ársfjórðungs og fyrri árshelmings
- Rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi voru 47,0m USD og 99,4m USD á fyrri árshelmingi.
- EBITDA á öðrum ársfjórðungi var 12,8m USD og 32,7m USD á fyrri árshelmingi.
- Hagnaður annars ársfjórðungs var 31,6m USD en 52,6m USD á fyrri árshelmingi. Þess ber að geta að 23,6m USD eru vegna söluhagnaðar, sem myndaðist við afhendingu SVN eignafélags yfir til hluthafa.
- Heildareignir samstæðunnar í lok annars ársfjórðungs námu 603,9m USD og eiginfjárhlutfall var 65%.