Akurey komin á Norðurlandsmið
Ísfisktogarinn Akurey AK er nú að veiðum á Skagagrunni og fyrirhugað er að aflanum verði landað á Sauðárkróki í kvöld. Þetta er mjög stuttur túr hjá Akurey því afla var síðast landað í Grundarfirði í byrjun vikunnar.
,,Sumarið hefur verið mjög gott aflalega séð. Við höfum verið á Vestfjarðamiðum og fengið fínan afla. Nú virðast aflabrögðin á Vestfjarðamiðum vera á hraðri niðurleið, í bili a.m.k., og þess vegna var ákveðið að reyna fyrir sér á miðunum út af Skagafirði,” segir Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey í samtali á heimasíðu Brims. Hann er nú í stuttu fríi. Á meðan er Magnús Kristjánsson með skipið.
,,Mér skilst að aflabrögðin hafi verið róleg það sem af er þessari stuttu veiðiferð. Við erum búnir að vera þarna fyrir norðan í tveimur síðustu veiðiferðum og höfum fulla trú á að aflinn glæðist,” segir Eiríkur sem taka mun aftur við skipstjórninni í kvöld.