Yfir 20.000 tonn af þorski í „pottana“

139
Deila:

Ríkið tekur til sín tæp 11.700 tonn af þorski fyrir úthlutun aflaheimilda á nýhöfnu fiskveiðiári. Leyfilegur heildarafli af þorski á fiskveiðiárinu er 220.417 tonn af óslægðum þorski. Því koma til úthlutunar í aflamarki 208.735 tonn samkvæmt reglugerð, sem sjávarútvegsráðherra hefur gefið út um veiðar í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2021-2022. Að auki eru tekin til hliðar 10.000 tonn af þorski fyrir strandveiðar. Ekki kemur fram í reglugerðinni hvaðan aflaheimildir vegna strandveiða eru teknar.

Þær heimildir sem ríkið tekur til sín fyrir úthlutun aflamarks í þorski eru settar í skel- og rækjubætur, 1.472 tonn, byggðakvóta til fiskiskipa, 4.500 tonn, byggðakvóta Byggðastofnunar, 4.092 tonn, frístundaveiðar, 250 tonn, strandveiðar 10.000 tonn og línuívilnun 1.400 tonn. Samtals fara í þessa potta 20.242 tonn af þorski. Af öðrum tegundum bætast samtals við ríflega 7.000 tonn.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða verður nú heimilt að flytja allt að 25% af aflamarki íslenskrar sumargotssíldar frá fiskveiðiárinu 2020/2021 yfir á fiskveiðiárið 2021/2022. Nú um áramótin eru óveidd 6.856 tonn af þessari síld, en leyfilegur heildarafli er 31.157 tonn.

Deila: