Fá ekki að kaupa makrílafla af Norðmönnum
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði fékk ekki að landa afla úr norsku veiðiskipi sem fyrirtækið hafði keypt afla af vegna íslenskra reglna um (umdeilda fiskistofna) deilistofna ef ekki er samkomulag um meðal strandþjóðanna. Fyrirtækið treysti á undanþágu sem ekki fékkst í tíma. Framkvæmdastjóri segir Íslendinga verða af verðmætum vegna þessa. Frá þessu er greint á frétta vefnum https://www.austurfrett.is/
Á þriðja tímanum á mánudag sigldi norska veiðiskipið Knester frá Fáskrúðsfirði með 685 tonn af makríl. Skipið hafði beðið við bryggjuna í fjóra tíma án þess að landað væri úr því en Loðnuvinnslan hafði samið um kaup á aflanum.
Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar, segir að samkvæmt íslenskum lögum sé ekki heimilt að landa úr erlendum skipum afla úr fiskistofnum sem ekki séu (alþjóðlegir) samningar um.
Fram til ársins 2017 keyptu íslenskar útgerðir talsvert af kolmunna af erlendum skipum og lönduðum honum. Það ár náðist hins vegar ekki samningur um skiptingu kvóta ársins og var þá gripið í lögin. Tvö skip á leið til Fáskrúðsfjarðar voru þá stöðvuð utan 12 mílna landhelginnar. Sjávarútvegsráðherra skarst þá í leikinn og veitti undanþágu þannig að skipin fengu að koma. Reglugerð var síðan sett fyrir vertíðina 2018.
Fyrsta skipti sem reynir á makrílinn
Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem reynir á lögin við löndum á makríl. „Við vissum ekki að við mættum ekki landa honum. Við reyndum að fá undanþágu á sömu forsendum og með kolmunnann, að við værum að skapa atvinnu og tekjur í landinu, en fengum ekki,“ segir Friðrik Mar.
Að lokum var samið við útgerð í Færeyjum að taka við aflanum og þangað sigldi Knester að lokum. „Við vorum mjög sorgmæddir að sjá á eftir skipinu. Okkur vantaði fisk í vinnslu því Ljósafellið er í slipp.“
Loðnuvinnslan var reyndar ekki ein á báti, Eskja hafði samið um kaup á 650 tonnum úr öðru norsku skip, Havsnurp. Því var snúið við.
Ekki til að veikja samningsstöðuna
Friðrik segir austfirsku útgerðirnar hafa fengið þau svör frá stjórnvöldum að það myndi veikja samningsstöðu Íslands um kvóta í makríl ef keypt yrði hráefni af Norðmönnum. Hann er ósammála þeim rökum.
„Aðrar strandveiðiþjóðir eins og Færeyingar og Skotar geta keypt þennan afla en við ekki. Skip Síldarvinnslunnar og Samherja hafa landað makríl í Noregi og Færeyjum. Ég sé ekki hvaða munur er á því og að við kaupum af norskum skipum. Þessi afli fer þá bara annað.“
Fimmtán ár eru síðan makríll fór fyrst að veiðast í íslenski lögsögu og síðan hafa staðið deilur um veiðirétt úr stofninum. Friðrik vonar að íslensk stjórnvöld sjái sig um hönd. „Norsk stjórnvöld hafa aldrei samþykkt Ísland sem makrílveiðiþjóð og á því er engin breyting. Menn þurfa að gera upp við sig hvort þeir vilja skapa atvinnu og tekjur með að leyfa þetta eða vera með afturhaldssamar skoðanir um samningsstöðu,“
Farið er að síga á seinni helming makrílvertíðarinnar en almennt hafa íslensku skipin þurft að fara langt eftir fiskinum í sumar. „Ísland hefur veitt um 107.000 tonn og á þá um 50.000 eftir. Vertíðin hefur gengið ágætlega. Í byrjun ágúst var frekar rólegt en nú eigum við tæp 6.000 tonn í landi. Makríllinn var í íslensku lögsögunni á tíma en mjög dreifður. Á alþjóðlegum hafsvæðum hefur verið fínasta veiði inn á milli.“