Færeyingar fá vottun MSC á veiðar á þorski og ýsu
Veiðar Færeyinga á þorski ýsu hafa nú fengið alþjóðlega vottun Marine Stewardship Council’s (MSC), um að veiðarnar séu sjálfbærar, en áður höfðu veiðar á keilu og löngu fengið slíka vottun. Í frétt frá MSC segir að þetta sé mikilvægur áfangi fyrir Færeyjar, en íbúarnir eru aðeins 53.000. Þeir eru háður útflutningi sjávarafurða til að byggja afkomu sína á.
Eftir vottunina geta Færeyingar merkt afurðir sínar úr þorski, ýsu, keilu og löngu með merki MSC um ábyrga og sjálfbærar veiðar. Það muni auka möguleika í markaðssetningu hærra afurðaverði.
Vottunin nú fæst eftir að sjávarútvegsráðherra Færeyja Jacob Westergaard lagði fram skipulag veiða á þorski og ýsu byggt á vísindalegri ráðgjöf um hæfilegan fjölda fiskidaga. Jafnframt stofnuðu fyrirtæki í sjávarútvegi sérstaka sameiginlega nefnd til að koma á skipulagi í samræmi við kröfur MSC um vottun.
Formaður nefndarinnar, Hanus Hansen, segir að skipulega hafi verið unnið að því að ná þessum áfanga samhliða því að færeysk stjórnvöld hafi hafi breytt fiskveiðilöggjöfinni í samræmi við kröfur MSC og alþjóðlegar viðmiðanir í stjórnun fiskveiða. Þetta komi bæði sjávarútveginum og þjóðfélaginu til góða.
Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra, segir að það hafi verið markmið færeyskra stjórnvalda að stjórna fiskveiðunum á þann hátt að komandi kynslóðir geti notið auðlinda hafsins ekki síður en nú er. Þess vegna hafi hann valið og koma á skipulagi og fiskveiðistjórnun byggða á vísindalegum grunni fyrir hverja fisktegund til að tryggja sjálfbærar veiðar. Það sé því ánægjulegt að að sjá að þessi leið hafi leitt til alþjóðlegrar vottunar MSC um sjálfbærni. Þetta komi öllum til góða, þar sem umheimurinn krefjist afurða úr sjálfbærum veiðum og fiskiðnaðurinn njóti hærri tekna af útflutningnum.
Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC við Norður-Atlantshafið segir að sjávarútvegurinn í Færeyjum hafi átt gott samstarf við MSC síðan hann fékk sína fyrstu vottun, sem hafi verið fyrir síld árið 2010. Hann hrósar stjórnendum sjávarútvegsfyrirtækja og færeyskum stjórnvöldum fyrir að vinna saman að úrbótum á fiskveiðistjórnuninni. Sjávarútvegurinn hafi sameinast í nýrri nefnd um fiskveiðimál, sem fari með alþjóðlega vottanir um sjálfbærni. Hann sé viss um að þetta fyrirkomulag muni halda fengnum vottunum áfram og leita eftir nýjum vottunum í tímans rás.
Durita í Grótinum er framkvæmdastjóri hinnar nýju nefndar, FISF. Hún segir að nefndin hafi leitt vinnuna við að ná vottuninni. Samvinnan við MSC hafi verið mjög góð. Það þurfi að uppfylla fjölmörg skilyrði fyrir vottun MSC. Hún hafi náðst vegna þess að færeysk yfirvöld hafi farið að ráðum sérfræðinga við mótun fiskveiðistjórnunar. Í framhaldinu sé nauðsynlegt að haga veiðunum í samræmi við ábyrga fiskveiðistjórnun og sjálfbærni til að viðhalda vottuninni. Það sé líka mikilvægt að færeyska Hafrannsóknastofnunin hafi innan vébanda sinna vísindamenn sem njóti trausts á alþjóðavettvangi og búi yfir þekkingu sem nýta megi til að byggja fiskveiðistjórnunina á.