Gagnrýna höfrungadráp
Samtök færeyskra fiskræktenda hafa sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem umfangsmiklu höfrungadrápi við eyjarnar 12. september síðastliðinn er harðlega gagnrýnt. Þá var yfir fjórtánhundruð leiftrum, smávöxnum tannhval af höfrungaætt, slátrað. Frá þessu er greint á ruv.is
Í yfirlýsingunni sem dagsett er 16. september segir að veiðarnar hafi ekkert með starfsemi fiskræktenda að gera, þær hafi verið einkaframtak og samfélagslegt athæfi almennings.
Eins segir að samtökin eða einstakir meðlimir þeirra hafi hvorki útvegað báta fyrir veiðarnar, meðan á þeim stóð né eftir að þeim lauk.
Mikil umræða hefur skapast í Færeyjum um málið og þá staðreynd að iðulega hendir að höfrungum er slátrað meðfram hefðbundnum grindhvalaveiðum.
Jacob Vestergaard, sjávarútvegsráðherra Færeyja, hefur áréttað að landsstjórnin telji Færeyingum heimilt að nýta sér alla sjávarauðlindina með sjálfbærum hætti.
Vaðan sem veidd var síðastliðinn sunnudag var óvenjustór þannig að umfang veiðanna kveikti þegar háværan ágreining heima fyrir og ekki síður erlendis enda fór fréttin sem eldur í sinu um fréttamiðla.
Veiðarnar, sem Færeyingar kalla grindardráp, hafa verið hluti af menningu þeirra um aldaraðir. Í augum fjölda heimamanna eru viðbrögðin því afleiðing óréttlátrar herferðar sem rekin er áfram af erlendum aðgerðasinnum.
Aðrir telja þau skýr skilaboð um að banna þurfi höfrungaveiðar með lögum eða hið minnsta setja skýrari og þrengri lagaramma um þær. Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyinga, tilkynnti nýverið að landstjórnin ætli sér að endurskoða reglugerð þess efnis.