Ægir helgaður „áramótunum“

127
Deila:

Nýútkomið tölublað Ægis er helgað kvótaáramótunum  og er þar að finna úthlutun til allra skipa og báta og ýmsar tengdar upplýsingar. Þá er í blaðinu rætt við skipstjórana Guðmund Jónsson á Vilhelm Þorsteinssyni EA og Sigtrygg Gíslason á Kaldbaki EA.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar ræðir um dapra nýliðun hjá mörgum fiskistofnum og útskýrir ástæðu ofmats á þorskstofninum.   Smábátasjómenn vilja leiðréttingu á ýsukvótanum, rýnt er í stöðu makrílstofnsins og fjallað um framkvæmdir í Hafnarfjarðarhöfn.
Pétur H. Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, segir í viðtali að niðurskurður þorskkvótans muni reynast mörgum erfiður.

Það sem markar þessi kvótaáramót er 13% niðurskurður í þorskkvótanum. Jóhann Ólafur Halldórsson, riststjóri Ægis ritar svo í leiðara blaðsins: „Nýliðin kvótaáramót marka ákveðið bakslag í sjávarútvegi þar sem aflaheimildir í þorski minnka um 13% frá fyrra fiskveiðiári. Líkt og forstjóri Hafrannsóknastofnunar fer yfir í viðtali í blaðinu er að hluta um að ræða ákveðna leiðréttingu og uppfærslu á gögnum síðustu ára en hver svo sem skýringin er þá er það sannarlega högg fyrir greinina þegar svo mikill niðurskurður er í mikilvægustu tegundinni milli ára. Líkt og útgerðarmenn benda á í viðtölum þá má búast við að áhrifin muni koma skýrt fram næsta sumar þegar líður að lokum fiskveiðiársins. Í heild sinni kallar þetta hjá mörgum fyrirtækjum á hagræðingu og breytingar í útgerðarmynstri og sókn.“

Deila: