Engin fiskfræðileg rök til að banna veiðar með dragnót

184
Deila:

Sjávarútvegsráðuneytið hefur hafnað beiðni byggðarráðs Norðurþings um að veiðar með dragnót verði bannaðar í Skjálfanda innan línu sem nemur við norðurenda Flateyjar í Tjörnestorfu. Fimm skip stunduðu veiðar með dragnót á Skjálfandaflóa í samtals 151 dag og segir ráðuneytið að það geti vart talist mikil sókn á það svæði. Frá þessu er greint á ruv.is

Smábátasjómenn á Húsavík óskuðu eftir því að byggðarráð Norðurþings léti  banna veiðar með dragnót á Skjálfanda vegna þeirra neikvæðu áhrifa sem veiðarnar hefðu á fiskistofna. 

Byggðarráð afgreiddi beiðnina á fundi sínum um miðjan síðasta mánuð þar sem það sagðist ætla að beita sér fyrir því að dragnótaveiðar væru takmarkaðar til muna. Mikilvægt væri að gripið yrði til þessara ráðstafana hið fyrsta og var sveitarstjóra falið að koma á fundi með sjávarútvegsráðherra.

Ráðuneytið hefur nú tekið beiðni byggðarráðs til athugunar og segist hafa leitað til Hafrannsóknarstofnunar og Fiskistofu.  Í umsögn Hafrannsóknarstofnunar kom meðal annars fram að engin „fiskfræðileg rök“ væru fyrir því að banna veiðar með dragnót í Skjálfandaflóa.  

Ráðuneytið segir enn fremur að samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hafi þrjú til fimm skip stundað veiðar með dragnót á Skjálfandaflóa undanfarin þrjú fiskveiðiár. Aflinn hafi verið frá 500 til 1.1150 tonn á hverju fiskveiðiári.  Fimm skip hafi stundað veiðar með dragnót á síðasta fiskveiðiári í alls 151 dag. „Að mati ráðuneytisins getur það vart talist mikil sókn á það svæði.“

Bergur Elías Ágústsson, sem á sæti í byggðarráði, er ósáttur með þetta svar ráðuneytisins og segir merkilega stöðu komna upp. „Byggðarráð hefur ALDREI farið fram á það að dragnótaveiðar verið bannaðar í Skjálfanda, eins og sjá má á afgreiðslu ráðsins. Afgreiðslu byggðarráðs Norðurþings er því ekki svarað að mínu mati,“ segir hann í bókun sinni.

Deila: