Hrollaugur gengur í LS á ný

192
Deila:

Á aðalfundi smábátafélagsins Hrollaugs á Höfn sem haldinn var á sunnudag var samþykkt að ganga aftur til liðs við Landssamband smábátaeigenda. „Samþykkt þeirra Hrollaugsmanna er einkar ánægjuleg þar sem hún markar á ný sameiningu smábátaeigenda allt í kringum landið, keðja sem rofnaði árið 2017 hefur nú endurheimt alla hlekki sína,“ segir í færslu á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda.

Í frétt frá fundinum segir m.a.:

„Félagar Hrollaugs telja það tímabært og mikilvægt að þétta raðir smábátaeigenda og ganga til liðs við Landssambandið á ný og leggja þar sitt að mörkum við áframhaldandi baráttu fyrir sanngirni og réttlæti í íslenskum sjávarútvegi núverandi og komandi kynslóðum til heilla og auka þar með samtakamátt og slagkraft Landssambandsins.“

„Mikill baráttuandi ríkti á aðalfundi Hrollaugs og félagsmenn bjartsýnir á komandi tíma. 

Fráfarandi stjórn voru færðar miklar þakkir fyrir störf sín undanfarinna 5 ára og ný stjórn kjörin með miklu lófaklappi,“ eins og segir á Facebooksíðu Smábátafélagsins Hrollaugs á Höfn.

Stjórn Hrollaugs er þannig skipuð:

Karl Heimir Einarsson formaður, Birnir Ásbjörnsson gjaldkeri Sævar Knútur Hannesson ritari. 

Eitt fyrsta embættisverk Karls Einars var að setja sig í samband við formann Landssambands smábátaeigenda og tilkynna honum um samþykkt þeirra Hrollaugsmanna.   

Deila: