Stefnir í metár hjá Norðmönnum

Útflutningur Norðmanna á sjávarafurðum stefnir í það í ár að skila meiru en 100 milljörðum norskra króna í annað skiptið. Það svarar til 1.500 milljarða íslenskra króna. Fyrstu níu mánuði ársins nemur útflutningurinn 84,7 milljörðum norskra króna, sem eru 1.268 milljarðar íslenskra króna. Það er 10% vöxtur frá sama tíma í fyrra.
Það er laxinn sem er langfyrirferðarmestur í útflutningnum, en verðmætið í september var 177 milljarðar íslenskra króna. Það er mesta sala í einstökum mánuði til þessa.
Markaðir eru smám saman að opnast eftir að faraldinn er að lægja og það hefur aukið eftirspurn eftir norskum fiskafurðum. Samdráttur var í útflutningnum á fyrri hluta ársins en frá og með þriðja fjórðungi hefur aukningin verið umtalsverð. Sá fjórðungur hefur skilað meiru en nokkur fjórðungur hingað til.
Útflutningur á laxi á fyrstu þremur fjórðungum ársins nemur 912.000 tonnum að verðmæti 852 milljarðar íslenskra króna. Það 14% vöxtur í magni og 10% í verðmæti. Meðalverð á kíló á þessu tímabili er 865 krónur, sem er 3% lækkun miðað við sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að verðið hafi hækkað um 7% í september.
Útflutningur í september jókst um 24% og varð alls 115.000 tonn. Mest af laxinum fer til Póllands, Frakklands og Danmerkur. Eftirspurn eftir norskum laxi er að aukast á ný eftir samrátt á fyrstu 12 mánuðum faraldursins. Mest hefur eftirspurn aukist frá Kína og Ítalíu.
Útflutningur á regnboga urriða hefur fallið um 16% og nemur 44.000 tonnum.
Þá hefur útflutningur á þorski og makríl gengið vel.