Fengu mikið af stórþorski á Dohrnbankanum!
Ísfisktogarinn Viðey RE kom til hafnar í Reykjavík á mánudag með svo til fullfermi af afla, 170 til 180 tonn. Aflinn fékkst m.a. á Dohrnbanaknum á milli Íslands og Grænlands en umrætt veiðisvæði hefur ekki verið þekkt fyrir annað en rækjuveiðar fram að þessu.
,,Þegar verið er að veiða þorsk leitar maður helst fyrir sér þar sem þann fisk er að finna. Að þessu sinni var það Dohrnbankinn en mér kom það verulega á óvart hve stór þorskurinn var og vel haldinn. Um þriðjungur aflans var þorskur átta kíló eða stærri og fiskurinn var úttroðinn af loðnu. Við fengum þó enga loðnu ánetjaða enda er uppsjávarskipaflotinn að leita að veiðanlegu magni mun austar, djúpt út af Norðurlandi,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri í samtali á heimasíðu Brims.
Margir eiga örugglega erfitt með að staðsetja Dohrnbankann enda er langt síðan íslensk skip fóru þangað til veiða. Til fróðleiks má geta þess að Dohrnbankinn er norðvestur af Vestfjörðum á miðlínunni milli Íslands og Grænlands. Þarna fékkst mjög stór rækja á árunum í kring um 1990 og var veiðisvæðið töluvert stærra Grænlandsmegin við djúpálinn sem þarna er.
Að sögn Ella var horfið af Dohrnbakanum þegar meira en nóg var komið af þorski fyrir vinnsluna.
,,Við komum einnig við í Víkurálnum og þar var bæði þorskur og karfi. Þorskveiðin var þó ekkert í líkingu við Dohrnbankann og stórþorskinn þar. Við erum með um 15-16 tonn af lifur eftir túrinn og það segir sitt um stærð þorsksins,” segir Jóhannes Ellert Eiríksson.