Síldin unnin og loðna framundan

350
Deila:

Lokið var við að vinna 900 tonn af íslenskri sumargotssíld úr Vilhelm Þorsteinssyni EA í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í fyrri nótt. Vinnsla úr Beiti NK, sem kom með 1030 tonn, hófst síðan í gærmorgun og er gert ráð fyrir að henni ljúki á föstudag. Síldin fékkst eins og áður á miðunum út af Faxaflóa. Tómas Kárason, skipstjóri á Beiti, sagði í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar í gær, að loðnan sé næst á dagskránni hjá þeim Beitismönnum.

„Við fengum þessa síld í Faxadýpinu. Þar var misjöfn veiði en þó góð um tíma. Nú eru allir að detta í loðnugírinn eftir að ráðherra undirritaði reglugerð sem felur í sér heimild til að veiða loðnuna með flotvörpu á því svæði sem hún hefur fundist á. Mér skilst að jafnvel verði unnt að hefja veiðar síðdegis í dag. Þessi loðnuvertíð er afar spennandi og tilhlökkunarefni. Vonandi fer hún í gang af þokkalegum krafti því ekki veitir af. Það eru svo sannarlega næg verkefni framundan,“ segir Tómas.

Börkur NK og Bjarni Ólafsson AK eru á loðnumiðunum fyrir norðan land. Barði NK er á kolmunnaveiðum en heldur til loðnuveiða að veiðiferðinni lokinni.
Brátt getur Beitir NK farið að veiða loðnu í flotvörpu. Ljósm. Heimir Svanur Haraldsson

Deila: