Færeyjar og Rússar semja um fiskveiðar
Færeyingar og Rússar hafa gengið frá gagnkvæmum samningi um fiskveiðar á næsta ári. Umtalsverð lækkun á leyfilegum heildarafla af helstu tegundum sett mark sitt á samninginn.
Norðmenn og Rússar hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um lækkun þorskkvótans í Barentshafi á næsta ári um 20% og 24% samdrátt í ýsuveiðum. Þá hafa strandveiðiþjóðir er koma að ákvörðum um heildarkvóta á uppsjávartegundum, komið sér saman um 19% niðurskurð í makríl, 8% í norsk-íslenskri síld og 7% í kolmunna.
Þorskveiðiheimildir Færeyinga innan lögsögu Rússlands í Barentshafi lækka um 2.760 tonn, sem er
13% samdráttur. Leyfilegur afli verður 15.356 í stað 17.690 tonna á þessu ári. Ýsukvótinn verður 1.343 tonn í stað 1.769 tonna í ár. Kvóti í flatfiski verður áfram 900 tonn.
Heimildir Rússa til veiða innan lögsögu Færeyja lækka samtals um 9.000 tonn. Kvóti í kolmunna lækkar um 7.000 tonn og verður 75.000 tonn. Makrílkvótinn lækkar um 1.200 tonn og verður 13.300 tonn. Þá lækkar kvótinn í norsk-íslenskri síld um 800 tonn og verður 9.200 tonn.
Rússar greindu frá því að þeir hefðu skipað nefnd til að rannsaka grundvöll rækjuveiða innan lögsögu sinnar í Barentshafinu. Engar rækjuveiðar verði því leyfðar fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. Auk þess sé staða rækjustofnsins í Rússasjó svo léleg að Færeyingar hefðu hvort eð er engar veiðiheimildir í rækju fengið á næsta ári.
Þessu mótmælti færeyska samninganefndin og varð niðurstaðan sú, að þeir fái að veiða 2.500 tonn af rækju innan lögsögu Rússlands, en ekki fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir. Jafnframt kröfðust Færeyingar 4.000 tonna rækjukvóta, en ekki 2.500 tonna, þegar þar að kæmi.
Undanfarin ár hafa löndin unnið að því að koma á tölvutækum upplýsingum um aflatilkynningar og er samningum um það langt kominn. Samþykkt var að slíkur samningur yrði kominn á árið 2023. Færeyjar hafa þegar gert slíkan samning við Ísland og Noreg og samningurinn við Rússa fylgir sömu forskrift.