Mokfiskar makríl við Óman
Flosi Arnórsson, skipstjóri, á fjölbreyttan og litríkan feril að baki. Síðustu 25 ár hefur hann stundað veiðar á fjarlægum miðum. Ævintýrið hófst á Flæmska hattinum við Nýfundnaland. Síðan var hann með skip beggja vegna Grænlands, í Barentshafi, við strendur Afríku og loks við Óman, þar sem hann stýrir frystitogaranum Victoríu, sem nú heitir Alnaema. Þar eru túrarnir langir, allt upp í fimm mánuðir og aldrei farið í land. En mesta lífsreynslan er fjögurra mánaða fangavist í Dubai vegna vopnaburðar! Flosi segir það hafa verið reynslu sem hann hafi ekki viljað missa af.
Rætt er við Flosa í jólablaði Ægis, sem nú er að koma út. Í blaðinu eru ennfremur viðtöl við Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóra Ísfélags Vestmannaeyja og Þorkel Péturssonson skipstjóra á Bjarna Ólafssyni AK. Fjallað er um hinn nýja togara Nesfisks, Baldvin Njálsson, DynIce Data höfuðlínkapalinn frá Hampiðjunni, áætlaðar nýframkvæmdir í höfnum landsins og verkun á skötu.