Færeyingar með fimm ný fiskiskip í smíðum

292
Deila:

Fimm ný fiskiskip eru væntanleg í flota Færeyingar á næstu misserum. Þetta eru fjárfestingar upp á 37 milljarða íslenskra króna.
Fyrsta útgerðarfélagið til að tilkynna um nýsmíði var JFK Trol í Klakksvík, sem lætur smíða nýjan Gadus í Tyrklandi. Hann verður einn sá tæknivæddasti sinnar tegundar og mun kosta um 8 milljarða króna.

Stuttu seinna tilkynnti Framherji í Fuglafirði samning um smíði á nýju Akrabergi í Noregi. Það skip verður einnig búið öllum nýjasta búnaði til frystingar um borð og mun kosta um 6,2 milljarða íslenskra króna.

Þriðja félagið sem tilkynnt hefur um nýsmíði er Enniberg, sem gert hefur út frystitogara í Barentshafi. Skipið er hannað að Skipbsteknik í Noregi og verður smíðað í Tyrklandi. Sá togari mun kosta um 8 milljarða króna. Þessi þrjú skip verða öll frystitogarar.

Útgerðarfélag Christians í Grótinum í Klaksvík hefur tilkynnt um samning um nýsmíði á stóru og tæknivæddu uppsjávarskipi hjá Karstensens Skibsværft í Skagen. Félagið seldi nýlega gamla skipið  til Grænlands og brúar bilið þar til nýja skipið kemur eftir um það bil mánuð, sem kaupum á skipi frá Íslandi, sem fer til Vestmanna Seafood, þegar nýja skipið hefur veiðar. Nýja skipið kostar um 6 milljarða.  

Loks hefur Varðin í Götu tilkynnt um nýsmíði. Það er dótturfélagið Krossbreka sem hefur undirritað samning upp á 6,7 milljarða íslenskra króna og er talað um dýrasta uppsjávarskip sem smíðað hefur verið í Skagen. Skipið mun leysa Finn Fríða af hólmi og verður afhent í mars 2024.

Núverandi skip, sem endurnýjuð verða eru komin til ára sinna, en í góðu standi. Gadus var smíðaður 1987, Akraberg 1994, Enniberg 1990, Christian í Grótinum 2003 og Finnur Fríði  í 2003.

Deila: