Lönduðu milli jóla og nýárs
Þrjú ísfiskskip Fisk Seafood voru á sjó milli jóla og nýjárs. Eitt þeirra landaði á Sauðárkróki en hin tvö í Grundarfirði.
Drangey kom til hafnar á Sauðárkróki með um 105 tonn, uppistaða aflans var þorskur.
„Veiðiferðin tók rúma þrjá sólarhringa og við vorum allan tímann á Halanum. Mjög fín veiði en norðaustan kaldafíla allan túrinn,“ sagði Ágúst Ómarsson skipstjóri í samtali við heimasíðu Fisk Seafood.
Farsæll SH 30 kom til hafnar í Grundarfirði og landaði 38 tonnum, þar af um 17 tonnum af þorski og 12 tonnum af skarkola. Farsæll var meðal annars á veiðum á Flákanum.
Sigurborg SH 12 landaði einnig í Grundarfirði samtals 61 tonni, uppistaða aflans var þorskur og skarkoli. Sigurborg var líka á veiðum á Flákunum.