Kvóti íslenskra skipa í Barentshafi aukinn

Deila:

Þorskkvóti íslenskra skipa innan lögsögu Noregs í Barentshafi verður 5.167 tonn. Það er 1.750 tonna aukning frá síðasta ári, en þá var kvótinn 3.420 tonn. Aukningin nú stafar af því að nú fá Norðmenn fullan loðnukvóta hér, en svo hefur ekki verið undanfarin ár.

12 skip fá nú úthlutað aflaheimildum samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Sum þeirra hafa það litlar heimildir að þau munu ekki halda til veiða í Barentshafinu heldur framselja heimildir sínar til annarra. Þau skip sem hafa mestar heimildir eru Akurey AK með 925 tonn, Sólborg RE með 871 tonn, Sólberg ÓF með 853 tonn, Björgvin EA með 631 tonn, Arnar HU með 631 tonn,  og Björg EA með 451 tonn.

Á síðasta ári sóttu fimm skip þorsk í lögsögu Noregs í Barentshafið. Sólberg ÓF var þar með mestan afla, 1.348 tonn. Næst kom Örfirisey RE með 1.212 tonn, þá Kaldbakur EA með 396, Björgúlfur EA með 278 tonn og Blængur NK með 185 tonn.

Ekki hefur verið gengi frá veiðiheimildum íslenskra skip Rússlandsmegin í Barentshafinu en kvótinn þar hefur verið um 4.000 tonn auk þess sem útgerðum stendur til boða að leigja til sín meiri heimildir þar.

Deila: