Carsoe selur vinnslubúnað í rússneska togara

Deila:

Danska fyrirtækið Carsoe hefur gert risastóra samninga um sölu á vinnslubúnaði fyrir nýja rússneska togara, sem munu vinna surimi um borð. Fyrir nokkru gekk fyrirtækið frá samningum um sjö surimiverksmiðjur fyrir jafnmarga nýsmíðaða togara í eigu Russian Fishery Company. Verðmæti þess samnings var 800 milljónir danskar krónur. Það svarar til 15,8 milljarða íslenskra króna. Nú hefur verið gerður samningur um fjórar verksmiðjur til viðbótar og er verðmæti þess samnings um 9,9 milljarðar íslenskar krónur.

Fyrir þremur árum kynntu rússnesk stjórnvöld nýja áætlun til hvetja til fjárfestinga og endurnýjunar í fiskveiðiflotanum. Í kjölfarið ákvað RFC að láta smíða 7 nýja togara og keypti verksmiðjur frá Carsoe í þá. Nú hefur verið ákveðið að bæta 4 nýjum togurum við og kaupa verksmiðjurnar frá Carsoe eins og áður. Þannig verða verksmiðjurnar 11 samtals.

Í frétt frá Carsoe segir að pöntun RFC á 4 verksmiðjum til viðbótar sýni mikinn metnað. Carsoe sé nú langstærsti framleiðandi og seljandi í heimi á vinnslukerfum fyrir fiskiskip og nýi samningurinn muni skila mikilli vinnu til ársins 2025. Samningurinn muni tryggja örugga atvinnu fyrir 350 starfsmenn félagsins, bæði innan og utan Danmerkur. Hann sýni einnig hæfni félagsins til að beita danskri tækniþekkingu við að vinna lausnir sem skili útgerðum um allan heim meiri hagnaði.

Togararnir eru útbúnir með búnaði til vinnslu, pökkunar og frystingar. Þeir eru 108 metra langir og 21 metri á breidd. Þegar þeir verða komnir í fulla drift geta þeir með 150 manna áhöfn veitt og unnið allt að 60.000 tonnum á ári. Kosturinn við þetta er að nú þarf ekki að frysta fiskinn um borð og landa til vinnslu í landi, þar sem hann er þýddur upp og síðan unninn. Einfryst vara er verðmætari en tvífryst enda gæðin meiri þegar fiskurinn er unninn og frystur um borð jafnóðum og hann er veiddur.

Á síðasta fjárhagsári var velta Carsoe 525 milljónir danskra króna  og hagnaður rúmlega 21 milljón danskra króna. Það svarar til 10,4  íslenskra króna í veltu og 415 milljóna króna í hagnað.

Deila: