Líst vel á nýtt ár

Deila:

,,Mér líst vel á nýtt ár. Það byrjar vel. Aflinn er góður, ef maður er á réttum stað, og veðrið hefur verið til friðs. Stöku brælur eins og vænta má á þessum árstíma en hinn besti afli þess á milli.”
Þetta segir Jóhannes Ellert Eiríksson (Elli), skipstjóri á ísfisktogaranum Viðey RE, en Viðey fór frá Reykjavík síðdegis í gær að aflokinni löndun.
,,Þetta er stutt stopp hjá okkur. Við komum inn í gærkvöldi með fullfermi. Uppistaðan í aflanum var þorskur en svo vorum við einnig með djúpkarfa, gullkarfa og ufsa. Allt er þetta stór og fallegur fiskur og ástandið á þorskinum og ufsanum minnir mann á að það er stutt í vetrarvertíð,” segir Elli í viðtali á heimasíðu Brims.
Elli segist hafa fyrst farið í Víkurálinn þar sem megnið af þorskinum fékkst.
,,Svo fórum við suður í Skerjadjúp með það að markmiði að veiða það magn af djúpkarfa sem okkur var ætlað. Það tókst en annar afli var mest gullkarfi og ufsi,” segir Elli en hann segir að úr Skerjadjúpinu hafi verið haldið beint til hafnar.
Viðey var aflahæsti togari landsins í fyrra með rúmlega 10.300 tonn af fiski upp úr sjó. Slíkur árangur næst ekki nema á góðu skipi með úrvalsáhöfn. Þá eru ótaldar fórnirnar sem áhöfnin færir nú þegar Covid 19 gengur yfir.
,,Það má eiginlega segja að maður sé í nokkurs konar útgöngubanni. Við vorum t.a.m. allir um borð á meðan verið var að landa,” segir Elli skipstjóri.

Deila: