Aflaheimildir í ýsu ekki auknar að sinni

Deila:

Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur svarað neitandi erindi LS um að auka leyfilegan heildarafla í ýsu um 8.000 tonn.  Þar segir m.a.: „Því hefur verið ákveðið að auka ekki aflaheimildir í ýsu að sinni.  Þess í stað verði fylgst áfram með þróun ýsuveiða næstu vikur og mánuði í samráði við Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu.“

Fjallað er um þetta á heimasíðu Landssambands: „Eins og fram hefur komið var erindi LS sent Hafrannsóknastofnun.  Í upphafi umsagnar stofnunarinnar til ráðuneytisins er rifjað upp svar hennar í apríl sl. þar sem sagt er að ekkert sé því til fyrirstöðu að auka við leyfilegan heildarafla ef aukningin verði tekin af úthlutun næsta fiskveiðiárs.

Í miðju umsagnarinnar vekur eftirfarandi sérstaka athygli:  

„Ýsuafli á yfirstandandi fiskveiðiári er um 20 þús tonn og því ljóst að um helmingur aflaheimilda er eftir.  Það er því ekki hægt að sjá rök fyrir því að auka nú þegar við aflaheimildir ýsu vegna stöðu aflaheimilda.“

Ekki verður séð að stofnunin eigi að hafa skoðun á þessum þætti, heldur að halda sig við það sem lítur að vísindalegri nálgun á málefninu.

Í niðurlagi umsagnarinnar greinir stofnunin frá að „við hermanir á aflareglu er ekki gert ráð fyrir tilfærslu aflamarks milli fiskveiðiára og því má ljóst vera að slík aðgerð felur í sér að aflareglu er ekki fylgt.“

Varðandi þennan þátt er rétt að benda á að í 11. gr. laga um stjórn fiskveiða segir:  

„Heimilt er að flytja allt að [15%] af aflamarki hverrar botnfisktegundar“  og síðar í sömu grein segir:  

„Ráðherra getur að fenginni umsögn [Hafrannsóknastofnunar] hækkað fyrrgreint hlutfall aflamarks í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar.“ Minnt skal á að í maí 2020 var heimild til flutnings milli ára hækkuð í 25%.  Aflareglu ekki fylgt?

Niðurlag umsagnar Hafrannsóknastofnunar er líklega komið vegna þess að ráðuneytið leyfir sér nú öðru sinni á stuttum tíma að leita eftir umsögn frá stofnuninni um sama erindi. „Að víkja útaf aflareglum ítrekað er í raun að fylgja ekki aflareglu og því leggst stofnunin gegn því að bætt verði við aflaheimildir ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári.“

Þegar ofanritað hefur verið rakið er ekki að undra að ráðherra hafi komist að þeirri niðurstöðu að til greina komi að auka við ýsukvóta ársins, þó það sé ekki tilbúið til þess á þessari stundu.   

LS mun hér ekki láta staðar numið varðandi beiðni um aukningu í ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári enda fullt tilefni er til að fylgja málefninu eftir.“

Deila: