iTUB og Fiskmarkaður Snæfellsbæjar í samstarf

Deila:

Fiskmarkaður Snæfellsbæjar hefur gert samstarfssamning við keraleigufyrirtækið iTUB ehf um að iTUB sjái fiskmarkaðnum og þeirra viðskiptavinum fyrir kerum fyrir landaðan afla sem lagður er upp til fiskmarkaðarins á Snæfellsnesi.

Fiskmarkaður Snæfellsbæjar var stofnaður árið 2015 í Ólafsvík en selur einnig fisk frá Grundarfirði, Tálknafirði, Sauðárkrók og Akranesi. Uppistaða selds afla er af Línu, Dragnót og Troll en seld eru um 15.000-19.000 þúsund tonn árlega. Afli er seldur í gegnum uppboðskerfi RSF alla uppboðsdaga ársins.

iTUB er keraleigufyrirtæki sem er með skrifstofur í Noregi, Danmörku og á Íslandi. Félagið varð tíu ára í febrúar 2020 en hefur verið á Íslandsmarkaði síðan 2014. iTUB býður eingöngu upp á ker með PE einangrun, sem þykja henta mun betur í leigufyrirkomulag sökum styrks og endingar, auk þess sem PE ker eru að fullu endurvinnanleg. Meðal viðskiptavina iTUB er mörg af stærstu fyrirtækjum í sjávarútvegi við Norður Atlantshaf.

„iTUB menn eru þekktir fyrir góða þjónustu og kerin sem þeir bjóða upp á eru með þeim bestu á markaðnum hvað varðar styrk og áreiðanleika. Þyngd keranna er stöðug óháð aldri, það tryggir rétta vigtun á aflanum sem ætti að vera grundvallaratriði í öllum fiskviðskiptum. Öryggi við alla meðhöndlun er gríðalega mikilvægt fyrir okkar viðskiptarvini. Við sjáum fram á góða vertíð og hlökkum til samstarfsins“, segir Andri Steinn Benediktsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Snæfellsbæjar.

„Við höfum verið að byggja upp okkar viðskipti á Íslandi síðustu ár og við erum mjög ánægðir með að fá tækifæri á að bjóða útgerðum og fiskvinnslum á Vesturlandi og víðar upp á okkar þjónustu í gegnum fiskmarkað Snæfellsbæjar. Kerin frá Sæplast hafa margsannað sig í þessum kröfuharða iðnaði og PE kerin eru þau bestu í þessi verkefni, aðallega vegna styrks og öryggis, sem og stöðugleika í vigtun, en ekki síst vegna þeirra eiginleika að þau eru auðveld í endurvinnslu. Þau eru því ákjósanlegur kostur þegar kemur að umhverfisumræðunni allri, enda hefur iTUB myndað sér skýra stefnu hvað það varðar. En við hlökkum til að vera í hringiðunni á vertíð á Breiðafirði og erum vissir um að samstarfið við fiskmarkaðinn verður farsælt!“, segir Hilmir Svavarsson, framkvæmdastjóri iTUB.

Deila: