Skrýtið að kreista hrogn úr 100 kílóa lúðu

447
Deila:

Maður vikunnar að þessu sinni starfar við fiskeldi í Öxarfirði. Hann byrjaði að vinna við sjávarútveg 15 ára í litlu fiskhúsi sem þjónað verslunum KEA á Akureyri. Hann er menntaður haffræðingur og er með meistaragráðu í sjálfbæru fiskeldi.

Nafn:
Arnar Freyr Jónsson.

Hvaðan ertu?
Fæddur á Akranesi en flutti barnungur til Akureyrar og tel mig vera Akureyring.

Fjölskylduhagir?
Giftur Heiðdísi Smáradóttur og við eigum þegar sett er saman 4 börn og 2 barnabörn.

Hvar starfar þú núna?
Ég starfa sem rekstrarstjóri hjá Samherja fiskeldi og sé um rekstur fiskeldisstöðva félagsins í Öxarfirði.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg? 
Ég byrjaði 15 ára að vinna á sumrin í litlu fiskhúsi á Akureyri sem þjónustaði verslanir KEA, sem voru á þeim árum fjölmargar.  Þar var unninn afli frá smábátum og lærði ég þar listina að flaka og fletja og brýna hnífa. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri hélt ég til Bandaríkjanna í háskólanám og útskrifaðist sem haffræðingur þaðan árið 1991. Sama ár hóf ég vinnu við lúðueldi sem var þá frumkvöðlastarfsemi á Hjalteyri.  Fiskeldið hefur átt huga minn alla tíð síðan og bætti ég við mig meistaragráðu í sjálfbæru fiskeldi frá St. Andrews háskóla í Skotlandi árið 2015.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?  
Vinna við fiskeldi er gefandi starf en um leið krefjandi.  Á hverjum degi lærir maður eitthvað nýtt.  Tækninni fleygir fram í þessari grein sem öðrum og það er spennandi að taka þátt í þeim framförum.  Það má ekki gleyma því að í fiskeldi er unnið með lifandi dýr og því fylgir sú ábyrgð að tryggja velferð þeirra.  Þegar vel gengur í fiskeldi þá er gaman, þá líður bæði mönnum og dýrum vel.

En það erfiðasta?  
Að vinna með lifandi dýr getur verið flókið, það eru óteljandi þættir sem geta haft áhrif.  Stundum kemur það fyrir í fiskeldi sem og í öðru eldi og ræktun að óæskilegar aðstæður geta skapast og einhverjir fiskar dafna ekki eða deyja.  Fyrir fiskeldismann þá er það erfiðast.  Þá skiptir máli þekking og reynsla sem skiptir sköpum við að leysa þau vandamál sem geta komið upp.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?  
Að vera á „kreistingarvakt“ var sérstakt, en þá voru 2 starfsmenn á næturvakt við að kreista hrogn úr lúðuklakfiski sem voru allt að 100 kg að þyngd.  Þá voru tveir af samstarfsfélögunum ansi góðir söngvarar og tóku þeir oft lagið ofan í eldiskerinu í þeirri von að það blíðkaði lúðurnar. 

Svo man ég eftir að ég fór eitt sinn til Noregs í vinnuferð með Benna Laxdal dýralækni, góðum vini mínum. Við gistum í norsku sumarhúsi sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Þá voru greiðslukortin orðin alls ráðandi hér á landi og við borguðum flest allt í gegn um tæki sem við Íslendingar þekkjum sem posa. Ég komst þó að því að í Noregi var það ekki raunin því það gerðist tvennt þegar kom að því að greiða fyrir gistinguna og ég spurði „har du en pose?“,   Stúlkan sem átti að taka við greiðslunni rak upp mjög stór augu og Benni vinur minn datt í gólfið og dó úr hlátri.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?  
Það mun vera konan mín, en við unnum saman í lúðueldinu og vinnum nú bæði hjá Samherja fiskeldi.


Hver eru áhugamál þín?
Það er óhætt að segja að helsta áhugamál mitt er golf.  Ég hef einnig gaman af því að hjóla.  Ég hef einnig mjög gaman að því að ganga til rjúpna. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?  
Ég er sælkeri og elska allan góðan mat. 

Hvert færir þú í draumfríið?  
Að ferðast innanlands á sumrin og skoða perlur Íslands með rafmagns fjallahjólið með í för er frábær skemmtun.  Við hjónin eigum það einnig til að fara í nokkra vikna frí og förum þá gjarnan á framandi slóðir, eins og t.d. í Suðaustur Asíu, þar sem er hlýtt og gott.  Ekki myndi maður slá hendinni á móti golfferð og skiptir þá litlu hvert er haldið, því félagsskapurinn er alltaf góður.

Deila: