Góð ufsaveiði á Heimsmeistarahryggnum

Deila:

Öll skip Brims voru í höfn vegna óveðursins sem gekk yfir Suður- og Vesturland. Örfirisey RE er reyndar á leiðinni á Vestfjarðamið en hin eru í höfn. Eiríkur Jónsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Akurey AK, segir að stefnt sé að því að skipið haldi út að nýju á miðnætti í kvöld en spáð er leiðindaveðri næsta sólarhringinn.

,,Síðasti túr gekk annars ágætlega ef brælurnar eru undanskildar. Við vorum með 110-115 tonna afla, mest ufsa en einnig fengum við rúm 30 tonn af karfa og svo var eitthvað af þorski og ýsu. Vigri RE var í mjög góðri ufsaveiði í nokkra daga á svokölluðum Heimsmeistarahrygg, sem er austast í Skerjadjúpinu, en síðan fjölgaði skipum mjög ört á slóðinni og veiðin varð minni. Við vorum að veiðum á hryggnum og stundum hitti maður á góðan afla en fengum ekkert þess á milli. Það var mesti vandinn að sneiða hjá hinum skipunum en þarna voru a.m.k. 15 til 16 skip samtímis að veiðum,” segir Eiríkur í samtali á heimasíðu Brims.

Eiríkur segir skotið á þessum stað vera frekar óvenjulegt en ufsinn var af góðri millistærð. Fyrst hafi orðið vart við þennan ufsa á Reykjanesgrunni.

,,Stóri vertíðarufsinn hefur lítið sést fram þessu en hann kemur. Reyndar hefur orðið vart við hann í litlu magni á Eldeyjarbankanum. Sömuleiðis mun vertíðarþorskurinn skila sér en við sjáum ekki mikið af honum núna,” segir Eiríkur en hann segist hafa endað veiðiferðina á Tánni þar sem hann segist hafa rekist á ufsa.

Það sem af er árinu hefur verið landað úr Akurey fjórum sinnum á Grundarfirði og tvisvar í Reykjavík. Eiríkur segir gott að landa á norðanverðu Snæfellsnesi þegar verið sé á veiðum á Vestfjarðamiðum en frá Grundarfirði sé bara tveggja og hálftíma akstur fyrir flutningabílana með aflann til Reykjavíkur.

Að sögn Eiríks hafa aflabrögðin á árinu verið góð þegar hægt hefur verið að stunda veiðar vegna veðurs.

,,Þrálátar brælur hafa gert okkur lífið leitt en svona hafa janúar og febrúar yfirleitt verið. Sá árstími er ekki uppáhaldstími þeirra sem eru á sjó. Næsta sólarhringinn er svo spáð enn einni brælunni og að ölduhæðin verði allt að 14 metrar. Við sluppum vel í síðasta túr og komum til hafnar vel áður en að óveðrið skall á. Heimsiglingin í næst síðasta túr var hins vegar skelfileg. Við vorum að veiðum hér fyrir sunnan og á landleiðinni var komin suð-vestanátt með allt að átta metra ölduhæð. Ég er bara búinn að vera á sjó í 50 ár og man ekki eftir öðru eins,” segir Eiríkur Jónsson.

Deila: