Súðavík vill afnema vinnsluskyldu

Deila:

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur samþykkt reglur um úthlutun (sérreglur) byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2021/2022. Voru reglurnar samþykktar samhljóða.

Er þar helsta breytingin að óskað er eftir afnámi á vinnsluskyldu aflans auk þess sem úthlutun er háð frekari skilyrðum. Verður í sumar horft til þess hvernig þeir sem fá úthlutað eru að leggja upp afla og tekið mið af kvótastöðu. Er þar einnig horft til verðlagsþróunar og afkomu Súðavíkurhafnar sem lítil umferð hefur verið um sl. ár.

Þá hefur orðið bæði samdráttar í aflaheimildum (úthlutuðum byggðakvóta) auk þess sem færabátum hefur fækkað milli ára sem nýta sér byggðakvótann. Hefur helsta ástæðan, að sögn Braga Thoroddsens sveitarstjóra, verið óánægja með verð og fyrirkomulag undir vinnslusamningsskyldu auk þess sem fyrirsjáanlega lítill hluti aflans fer til vinnslunnar beint. Stærð fiskjar hefur haft áhrif þar sem verðmætasti aflinn hefur ekki verið móttekinn af vinnslusamningshafa ofan í það að gæftir hafa leitt til þess að afli frá Súðavíkurhöfn hefur verið áframseldur á markað. Fyrningar byggðakvóta hafa gengið milli ára og er fyrirsjáanlegt að frekari samdráttur verður í úthlutun ef aðeins hluti úthlutunar er nýttur, þvert ofan í það sem lagt var upp með.  

„Enn sem komið er verða sérreglur Súðavíkurhrepps aðeins til kynningar og eru í umsóknarferli til ráðuneytis áður en unnt er að fá staðfestingu frá Fiskistofu. Vonir okkar standa til þess að fyrirkomulagið verði samfélaginu hér til heilla með frekari sátt um úthlutun og hámarkað verði það sem fæst fyrir bæði afla og kvóta.“ segir Bragi.

Mynd og frétt af bb.is

Deila: